Óljóst er hvort kaup Rapyd Europe á Valitor verði heimiluð en samkvæmt frummati Samkeppniseftirlitsins (SKE) mun samruni félaganna að óbreyttu „ýmist styrkja verulega mögulega markaðsráðandi stöðu Valitors eða leiða til afgerandi markaðsráðandi stöðu sameinaðs félags á heildarmarkaði fyrir færsluhirðingu hjá íslenskum söluaðilum og raska samkeppni með umtalsverðum hætti, söluaðilum og neytendum til tjóns.“

Arion banki tilkynnti fyrst um 100 milljóna dala söluna, eða sem nemur nærri 13 milljörðum króna, á Valitor til Rapyd þann 1. júlí 2021. SKE hefur verið með kaupin til skoðunar síðan í september. Rapyd og Arion framlengdu nýlega kaupsamkomulagi til 1. maí 2022 þar sem niðurstaða eftirlitsins lá ekki fyrir lok síðasta árs líkt og fyrirtækin höfðu búist við.

Meðal áhyggjuefna sem eftirlitið dregur fram í frummati sínu er mikil samþjöppun á markaðnum sem geti leitt til markaðsráðandi stöðu Valitors. „Samruninn yki því verulega hættu á því að verð fyrir færsluhirðingu hækkaði vegna minni beinnar samkeppni,“ segir í tilkynningu sem birt var á vef SKE á föstudaginn. Stofnunin segir að umsagnir markaðsaðila renni stoðum undir þetta mat.

Hlutdeild Rapyd tvöfaldast en dregist „verulega“ saman hjá SaltPay

Þá bendi rannsóknir SKE til að Valitor og Rapyd séu nánir keppinautar. Rapyd geti að líkindum talist mikilvægt samkeppnisafl í ljósi þess að félagið hefur tvöfaldað markaðshlutdeild sína síðastliðin tvö ár. „Á sama tíma hefur hlutur SaltPay (sem áður hét Borgun) á markaðnum dregist verulega saman.“

Því telur stofnunin að áformaður samruni Valitors og Rapyd kunni að vera „sárlega skaðlegur“ samkeppni á markaðnum. Þá aukist hættu á þögulli samhæfingu og gæði þjónustu og nýsköpun geti dregist saman vegna fækkun keppinauta í færsluhirðingu.

Fram kemur að í það minnsta tveir innlendir aðilar hyggist hasla sér völl á sviði færsluhirðingar á næstunni en SKE telur óvíst að þessir nýju keppinautarhafi burði til að þjónusta stærri smásöluaðila sem þarfnist flóknari þjónustulausna. Fækkun keppinauta hafi því meiri áhrif á valmöguleika stærri söluaðila. Eftirlitið telur einnig að samkeppnisaðhald frá erlendum færsluhirðum sé takmarkað hérlendis.

Selja frá sér „talsvert magn“ færsluhirðingarsamninga

Fram kemur að eftir að SKE gerði samrunaaðilum fyrst grein fyrir því að samruninn gæti leitt til markaðsráðandi stöðu Valitors hafi þeir lagt fram drög að sáttarskilyrðum í lok nóvember. „Kjarninn í tillögum þessum fól í sér að samrunaaðilar seldu frá sér talsvert magn færsluhirðingarsamninga til annars þjónustuaðila,“ segir í tilkynningu eftirlitsins.

SKE gerði þó alvarlegar athugasemdir vegna útfærslu á sölu færsluhirðingarsamninganna og reifaði efasemdir um hæfi þess aðila sem samrunaaðilar höfðu ákveðið að semja við.  Í kjölfarið brugðust Rapyd og Valitor við með að breyta söluútfærslunni verulega.

Í greinargerð Rapyd með sáttartillögunni segir að fjártæknifyrirtækið skuldbindi sig m.a. til að selja samninga á markaði sem leiðir til að markaðshlutdeild fari niður fyrir tiltekinn þröskuld, sem taki tillit til sjónarmiða SKE. Sameinuðu félagi varði jafnframt óheimilt að endurnýja samningssamband við selda söluaðila í tiltekinn tíma.

„Rapyd er að ljúka við sölu á hinu selda til aðila sem uppfyllir [kaupendakröfur],“ segir í greinargerð Rapyd. „Væntur kaupandi er leiðandi afl á íslenskum fjártæknimarkaði og munu kaupin efla stöðu hans enn frekar.“ Salan er þó háð samþykki SKE.

Eftirlitið vekur sérstaka athygli að skilyrðum um að áformuðum kaupanda að færsluhirðingarsamningunum verði veitt tiltekin tækniþjónusta í allt að fimm ár af hálfu Rapyd og Valitor.

Samkeppniseftirlitið hyggst bera tillögur samrunaaðila undir markaðsaðila með markaðsprófi. Á heimasíðu SKE kemur fram að lok frests á fasa II rannsóknarinnar sé 4. mars næstkomandi.