Bandaríska sjóðastýringarfyrirtækið Capital Group, fimmti stærsti hluthafi Íslandsbanka, hefur selt hlutabréf í evrópskum bönkum fyrir um 8 milljarða evra í ár. Einn sjóðstjóri Capital Group er sagður hafa knúið fram söluna, samkvæmt frétt Financial Times.

Capital Group, undir stjórn Nick Grace, hefur á undanförnum árum byggt upp stóra stöðu í evrópskum bönkum, þar á meðal í Barclays, Deutsche Bank, Société Générale, UniCredit, Santander, BNP Paribas and UBS. Ótti um vaxandi verðbólgu og minni hagvöxt í kjölfar innrásar Rússa í Úkraínu leiddi þó til þess að sjóðastýringafyrirtækið seldi hlutabréf í bönkunum fyrir 8,1 milljarð evra í ár.

Nýsjálendingurinn Grace, sem er búsettur í London, hefur unnið hjá Capital Group í 32 ár og er annar sjóðstjóra hins 160 milljarða dala EuroPacific Growth sjóðs. Í umfjöllun FT segir að Grace hafi sætt sig við tap til að verja sjóðinn fyrir frekari skaða.

Nick Grace
Nick Grace

Sjóðir í virkri stýringu hjá Capital Group eru með nokkra sjóðstjóra sem fá allir hluta af fjármagni til að ráðstafa eins og þeim sýnist. Sjóðstjórarnir eru hvattir til þess að taka stórar stöður á sínu sérsviði.

Grace taldi á sínum tíma evrópska banka undirverðlagða en markaðsvirði þeirra var nokkuð undir bókfærðu eigin fé. Hann mat það svo að hagnaður bankanna myndi aukast verulega með hækkandi vöxtum og tilheyrandi auknu vaxtabili. Þá hafi eiginfjárstaða bankanna almennt batnað og eiginfjárreikningar þeirra dregist saman.

Auk þess höfðu fjárfestingabankar á borð við Barclays og Deutsche skilað methagnaði í kjölfar aukinna samruna, yfirtaka og skráninga félaga eftir að markaðir náðu sér eftir útbreiðslu Covid-19 veirunnar.

Grace og aðrir sjóðstjórar höfðu einnig vonast eftir aukinni samþjöppun í evrópska bankageiranum, meðal annars með millilandasamrunum.

Minnkað verulega við hlut sinn

Capital Group seldi allan hlut sinn í þýsku bönkunum Deutsche Bank og Commerzbank í síðasta mánuði. Capital Group var fyrir söluna næst stærsti hluthafi Deutsche með yfir 5% hlut en hlutabréfverð þýska bankans lækkað töluvert í sölunnar.

Sjá einnig: Capital Group selur sig úr Deutsche Bank

Capital Group hefur einnig selt 400 milljóna evra hlut í spænska bankanum Santander í ár, selt 3,6% hlut í Barclays, selt allan 5% hlut sinn í hollenska bankanum ING ásamt því að minnka hlut sinn í UniCredit og Société Générale.

Capital Group er fimmti stærsti hluthafi Íslandsbanka með 5,22% hlut. Bandaríska sjóðastýringafyrirtækið var hornsteinsfjárfestir í hlutafjárútboðinu í júní 2021 og fékk þar úthlutað 3,85% hlut. Félagið tók einnig þátt í útboði Bankasýslunnar í síðasta mánuði og hefur stækkað við hlut sinn í Íslandsbanka í kjölfar útboðsins.