Meirihluti Sjálfstæðisflokks í bæjarstjórn Seltjarnarness ákvað í dag að tillaga Þyrpingar um deiliskipulags Bygggarða verði ekki auglýst frekar heldur verði áfram unnið að mótun hugmynda að deiliskipulagi svæðisins í samstarfi við þróunaraðila þess.

Meirihlutinn telur að tillaga Þyrpingar falli innan hámarksnýtingar sem sett er um byggð á svæðinu í gildandi aðalskipulagi Seltjarnarnesbæjar, en vekji um leið upp spurningar um hvort  unnt sé með frekari vinnu að leiða fram nýjar lausnir á deiliskipulagi svæðisins.

Þá kemur einnig fram í tillögu Sjálfstæðismanna að svigrúm samstarfsaðila til að leita annarra og fjölbreyttari tillagna sé bæði til staðar og verulegt á forsendum gildandi aðalskipulags með hliðsjón af fyrirliggjandi minnisblaði lögmanna bæjarins.

„Mikilvægt er að  vel takist til um deiliskipulag hinnar nýju byggðar og að fram fari fagleg umræða um helstu  þætti sem m.a. lúta að  nánasta umhverfi, húsagerð, nýtingu, útlit og gæði fyrirhugaðrar byggðar.

Stefnt skal að því að fjölga íbúðum í þeim tilgangi að nýta það þjónustustig sem til staðar er á Seltjarnarnesi en íbúabyggð á þéttingarsvæðum taki mið af þeirri byggð sem fyrir er og að byggð verði aðlaðandi íbúðasvæði og fjölbreytni í íbúðagerðum,” segir í tillögu meirihlutans.

Bæjarstjórn Seltjarnarness mun óska eftir því við þróunaraðila að lagðar verði fram fleiri skipulagskostir fyrir svæðið og tók fram að samráð yrði haft við íbúa á mótunarstigi tillagnanna.

Þetta var samþykkt á fundi bæjarstjórnar Seltjarnarness fyrr í dag.