Álagning fasteignagjalda í Seltjarnarnesbæ í A-flokki munu á næsta ári lækka úr 0,20% í 0,175% af matsverði íbúðarhúsnæðis og stendur því nánast í stað þrátt fyrir umtalsverða hækkun fasteignamats. Lóðar og álagningarprósenta útsvars verður undir hámarki eða 13,70%, en hámarkið er 14,52% að því er fram kemur í nýrri fjárhagsáætlun bæjarins.

Leikskólagjöld verða áfram lægst á höfuðborgarsvæðinu og tómstundastyrkir verða á árinu 50.000 krónur með hverju barni 6 – 18 ára. Dagvistunarkostnaður foreldra með börn hjá dagforeldrum verður sá sami og ef barnið væri í leikskóla Seltjarnarness.

Unnin í samstarfi allra flokka

Fjárhagsáætlun Seltjarnarnesbæjar fyrir árið 2018 var samþykkt einróma í Bæjarstjórn Seltjarnarness við aðra umræðu miðvikudaginn 29. nóvember síðastliðinn. Áttunda árið í röð var fjárhagsáætlunin unnin í góðu samstarfi allra flokkanna og haft að leiðarljósi að styðja vel við grunnþjónustu bæjarfélagsins, s.s. skóla- og menntamál, forvarnarstarf og félagslega þjónustu segir í fréttatilkynningu frá bænum.

Helstu framkvæmdir ársins 2018 munu felast í því að ljúka byggingu hjúkrunarheimilis sem telur 40 rými. Ásamt ýmsum almennum viðhaldsframkvæmdum bæjarins verður unnið að endurnýjun íþróttamiðstöðvarinnar sem og verður byggður íbúðakjarni fyrir fatlað fólk.

Að auki er gert ráð fyrir kaupum á félagslegu húsnæði sem fjármagnað verður með lántöku. Skuldahlutfall Seltjarnarnesbæjar er nú komið undir 50% og fer lækkandi á hverju ári.