Meirihluti Sjálfstæðisflokks í bæjarstjórn Seltjarnarness hyggst leggja fram tillögu um lækkun fasteignagjalda árið 2005 á Seltjarnarnesi á fundi bæjarstjórnar síðar í mánuðinum.

Í tilkynningu frá bænum kemur fram að eins og fram hefur komið í fréttum hefur verðmæti fasteigna á Seltjarnarnesi hækkað verulega síðustu misseri og um áramót tók gildi nýtt fasteignamat frá Fasteignamati Ríkisins sem kveður á um 30% hækkun sérbýlis á Seltjarnarnesi og hefur því veruleg áhrif á útgjöld heimilanna vegna fasteignagjalda eins og annarsstaðar á höfuðborgarsvæðinu. Meðaltalshækkun fasteignamats á Seltjarnarnesi nemur tæpum 20% á milli ára.

"Að óbreyttu mundu skatttekjur bæjarins af fasteignagjöldum aukast talsvert umfram þær forsendur sem lágu til grundvallar nýsamþykktri fjárhagsáætlun bæjarins. Í ljósi þeirrar áherslu sem sjálfstæðismenn á Seltjarnarnesi hafa lagt á ábyrga fjármálastjórn bæjarins og lágar álögur hefur bæjarstjórnarhópur flokksins ákveðið að leggja til í bæjarstjórn að álagingarstuðlar fasteignagjalda verði lækkaðir og koma þannig til móts við íbúa og skattgreiðendur á Seltjarnarnesi. Eftirspurn eftir húsnæði á Seltjarnarnesi og hækkun fasteignaverðs ber glöggt vitni um samkeppnisstöðu bæjarins gagnvart öðrum sveitarfélögum. Á grundvelli traustrar fjárhagsstöðu bæjarins og ráðdeildar í rekstri bæjarsjóðs telja sjálfstæðimenn mikilvægt að deila þeim ávinningi með skattgreiðendum á Seltjarnarnesi. Rétt er einnig að taka fram að stuðlar fasteignagjalda á Seltjarnarnesi hafa um langt skeið verið með þeim lægstu á höfuðborgarsvæðinu og leggur Seltjarnarnesbær t.d. ekki á holræsagjald, eitt sveitarfélaga á landinu," segir í tilkynningunni.