Flugfélagasamsteypan Air France-KLM hefur keypt 31% hlut í breska flugfélaginu Virgin Atlantic samkvæmt frétt BBC. Seljandinn er fjárfestingafélag Richard Branson, Virgin Group sem minnkar hlut sinn í félaginu úr 51% niður í 20%.

Í yfirlýsingu sem Branson sendi frá sér segir hann að þrátt fyrir söluna muni hann taka virkan þátt í starfsemi félagsins. Segir hann að flugfélagið, viðskiptavinir og vörumerki þess muni njóta góðs af nýju eignarhaldi en Bandaríska flugfélagið Delta á einnig 49% hlut í Virgin Atlantic.

Jean-Marc Janaillac, forstjóri Air France-KLM segir að kaupin muni veita viðskiptavinum félagsins en fleiri valkosti á ferðum milli Evrópu, Bretlands og Bandaríkjanna á tólf áfangastöðum vegna Atlantshafsins.

Virgin Atlantic var stofnað árið 1984 af Richard Branson og var eitt af fyrstu fyrirtækjunum í eignasafni Virgin Group. Í tilkynningunni frá Branson sagði hann einnig að eftir því sem hann hafi orðið eldri hafi hann lagt áherslu á það að allar nauðsynlegar stoðir væru til staðar hjá Virgin Atlantic svo félagið gæti haldið áfram að vaxa og dafna næstu 50 árin.