Breskur sölumaður malar gull á því að selja ferskt loft til Kína. Leo De Watts, sem er 27 ára, hefur hafið sölu á krukkum með lofti frá Somerset, Wales og Dorset, en hver krukka kostar um 80 bresk pund - tæplega 15 þúsund krónur.

Fyrirtæki Watts heitir Aethaer, en í umfjöllun blaðsins Dorset Echo er því haldið fram að Aethaer hafi selt meira en 180 loftkrukkur á síðustu vikum frá því að fyrirtækið var stofnað. Eftirspurnina má líkast til rekja til þeirrar staðreyndar að loftmengun í Kína er gífurlega mikil.

Halda mætti að Aethaer væri einfaldlega gjörningur, en svo virðist ekki vera. Það er í raun og reynd markaður fyrir loftkrukkur, og De Watts finnst sú staðreynd segja ýmislegt um ástand heimsins. Stór hluti ágóðans fer að hans sögn til umhverfisverndarsamtaka sem starfa að því að bæta loftgæði heimsins.

„[Loft Aethaer] er síað á náttúrulegan hátt gegnum laufblöð og skógarlæki, en það rennur gegnum náttúruna og er tandurhreint þegar starfsfólk Aethaer fangar það og setur í krukkur,” segir á vefsíðu fyrirtækisins.

Í myndbandi sem sjá má hér að neðan talar De Watts um að fyrirtækinu berist margskonar fyrirspurnir um hvaðan eigi að fanga tiltekna loftið sem viðskiptavinirnir sækja í - hvort sem það er á dalsbotni eða fjallstindi.