Eigendur sælgætisgerðarinnar Freyju og Langasjávar hafa undirritað kaupsamning um kaup Langasjávar á félaginu K-102, móðurfélagi Freyju, að fullu og einnig fasteignir sem tengjast rekstrinum. Kaupin eru háð hefðbundnum fyrirvara um samþykki Samkeppniseftirlitsins.

Viðskiptablaðið sagði frá því í sumar að K-102 væri í söluferli en félagið hefur verið í eigu Ævars Guðmundssonar og fjölskyldu í 42 ár. Freyja er elsta starfandi sælgætisgerð á Íslandi.

Langisjór er móðurfélag fyrirtækja í framleiðslu og dreifingu á matvælum og sinnir einnig útleigu og uppbyggingu atvinnu- og íbúðarhúsnæðis. Meðal fyrirtækja í samstæðu Langasjávar eru Alma íbúðafélag hf., Brimgarðar ehf., Mata hf., Matfugl ehf., Salathúsið ehf. og Síld og fiskur ehf. Langisjór er í eigu systkinanna Guðnýjar Eddu, Eggerts Árna, Halldórs Páls og Gunnars Þórs Gíslabarna og fjölskyldna þeirra.

Ævar Guðmundsson, stjórnarformaður Freyju:

„Eftir yfir 40 ára uppbyggingu okkar fjölskyldunnar á Freyju er fyrirtækið komið á mjög góðan stað en jafnframt með gríðarlega mörg ónýtt tækifæri í augsýn. Sérstaklega í vöruþróun og stöðugum vexti í útflutningi eftir 15 ára vinnu við að byggja upp viðskiptatengsl. Því finnst mér þetta góður tími til að hefja nýjan kafla í lífinu og koma fyrirtækinu í hendur á traustum eigendum.

Mér er umhugað um fjölskylduleg gildi og að koma vel fram við starfsfólkið mitt og þess vegna líður mér mjög vel með að setja Freyju í hendur fjölskyldufyrirtækisins Langasjávar sem ég veit að hefur líðan starfsfólksins í forgrunni.“

Guðný Edda Gísladóttir, stjórnarformaður Langasjávar:

„Við fjölskyldan erum mjög ánægð með að hafa náð samkomulagi við eigendur Freyju um þessi viðskipti. Nú er þessi Draumur loksins að verða að veruleika! Rekstur félagsins hefur gengið vel síðustu ár og ætlum við að byggja á þeim góða grunni í næsta kafla í sögu Freyju. Hjá okkur ríkir Djúpur skilningur á áratugalangri sögu félagsins og það verður spennandi verkefni að taka þátt í frekari uppbyggingu Freyju. Við sjáum að það er greinilega mikill Kraftur í starfsfólki félagsins.

Öflug vöruþróun síðustu ára hefur skilað fullt af nýjum vörum sem eru algjörar BOMBUR líkt og súkkulaðiplöturnar, Sterkar Djúpur, Djöflar og fleira góðgæti. Í MIX við þetta er Freyja með mikið af frábærum vörum sem hafa verið í uppáhaldi hjá Íslendingum í marga áratugi, til dæmis Freyju Karamellur, Möndlur, Rommý, Hrís, Staur, Jólaköttur og Villiköttur. Við vonum að ekkert geti nú staðið eins og Staur í vegi fyrir þessum viðskiptum því þá gætu seljendurnir lent í Jólakettinum.“

Fyrirtækjaráðgjöf Landsbankans var umsjónaraðili með söluferli K-102 ehf. og ráðgjafi seljenda. BBA//FJELDCO var ráðgjafi kaupenda.