Nýsköpunarsjóður atvinnulífsins hefur selt tæplega 26% hlut sinn í fyrirtækinu Kerecis samkvæmt fréttatilkynningu. Kaupendur eru stofnendur félagsins og íslenskir fjárfestar sem leiddir eru af frumkvöðli fyrirtækisins Guðmundi F. Sigurjónssyni. Kaupverðið er trúnaðarmál.

Nýsköpunarsjóður fjárfesti í Kerecis í ársbyrjun 2010 þegar þróunarstarf félagsins var að hefjast og hefur sjóðurinn fylgt fjárfestingunni eftir í 5 ár. Á þeim tíma hefur félagið þróað stoðefni sem markaðssett er undir nafninu Kerecis Omega3.

Kerecis Omega3 er roð af íslenskum þorski, þar sem allar frumur hafa verið fjarlægðar, þannig að eftir stendur stoðefni búið til úr millifrumuefni. Markaðssetning á fyrstu vörunni sem byggir á þessari tækni og notuð er til sárameðhöndlunar er hafin. Við notkun er efnið lagt á sár og hjálpar það til við að endurskapa skaðaðan húðvef.

„Við hjá Nýsköpunarsjóði náðum góðri ávöxtun á fjárfestingu okkar í Kerecis. Fjársterkir aðilar hafa bæst í hlutahafahóp félagsins undanfarin ár og er fyrirtækið vel í stakk búið til að takast á við þau verkefni sem framundan eru, sem eru að ná árangri í sölu- og markaðssetningu vörunnar. Nýsköpunarsjóður er sígrænn sjóður og því nýtist hagnaðurinn af þessari sölu í önnur verkefni. Við þökkum stofnendum og starfsmönnum Kerecis fyrir gott samstarf og óskum félaginu áframhaldandi velgengni,“ segir Helga Valfells, framkvæmdastjóri Nýsköpunarsjóðs atvinnulífsins.