Sigurður Arngrímsson, einn af stærri hluthöfum Bláa lónsins með 6,2% hlut í gegnum eignarhaldsfélagið Saffron Holding, er að ljúka við sölu á hlut sínum í fyrirtækinu til Blávarma, félags í eigu fjórtán lífeyrissjóða. Kaupverðið hljóðar upp á 25 milljónir evra, eða um 3,8 milljarða íslenskra króna, en búist er við að viðskiptin fari í gegn á næstu dögum samkvæmt heimildum Vísis .

Miðað við kaupverð Blávarma er Bláa lónið metið á ríflega 61 milljarða króna. Samkvæmt síðasta ársreikningi Blávarma átti félagið 30,0% hlut í Bláa lóninu en með kaupunum fer eignarhluturinn upp í 36,2%. Hlutur Blávarma nemur því tæplega 22 milljarða virði miðað við kaupgengið í viðskiptunum.

Greint var frá því í síðustu viku að Helgi Magnússon, ráðandi hluthafi hluthafi Torgs, hafi selt 6,2% hlut sinn í Bláa lóninu til Stoða. Samhliða sölunni lætur Helgi af störfum sem stjórnarformaður Bláa lónsins. Í frétt Vísis segir að Helgi hafi selt hlut sinn á lítillega lægra verði en í tilfelli Sigurðar.