Útgerðarfélagið KG Fiskverkun seldi rétt eftir ellefuleytið í morgun 0,5% hlut í Brimi fyrir 725 milljónir króna. Þetta kemur fram í tilkynningu til Kauphallarinnar en Hjálmar Þór Kristjánsson, stjórnarmaður Brims og bróðir Guðmundar Kristjánssonar, forstjóra Brims, fer með 10% hlut í KG Fiskverkun.

Alls seldi KG Fiskverkun 10 milljónir hluti í Brimi á genginu 72,5 krónur á hlut. Hlutabréfaverðs Brims hefur hækkað um tæp 10% í morgun eftir að Hagrannsóknastofnun birti haustráðgjöf á aflamarki loðnu.

Sjá einnig: Loðnan kemur Brim og SVN í nýjar hæðir

KG Fiskverkun er fimmti stærsti hluthafi Brims og fer enn með 4,5% hlut í félaginu. Markaðsvirði eignarhlutarins nemur um 6,4 milljörðum króna.

Viðskiptablaðið greindi frá því í gær að KG Fiskverkun hafi fest kaup á öllu hlutafé útgerðar- og fiskvinnslufyrirtækisins Valafell sem er með rekstur í Snæfellsbæ, líkt og KG Fiskverkun. Daði og Fannar, synir Hjálmars Þórs, eiga sitthvorn 45% hlut í KG Fiskverkun, samkvæmt fyrirtækjaskrá. Hjálmar átti í byrjun árs 76% hlut í KG Fiskverkun samkvæmt síðasta ársreikningi og því má ætla að eignarhald félagsins hafi breyst á árinu.