Sýn tilkynnti í gærkvöldi um félagið hafi undirritað sölu á 49,9% hlut í færeyska hlutdeildarfélaginu P/F 20.11.19. Söluverðið er 52,5 milljónir danskra króna, eða um 1.050 milljónir íslenskra króna miðað við núverandi gengi.

Greiðslan fer í gegn þegar öllum skilyrðum kaupsamnings hefur verið fullnægt, sem stjórnendur Sýnar telji að verði öðrum ársfjórðungi. Viðskiptin munu ekki hafa áhrif á EBITDA hagnað Sýnar en styrkir lausafjárstöðu félagsins. Eftir söluna mun áfram verða til staðar þjónustusamningur á milli félaganna.

Félagið P/F 20.11.19 varð til við samruna Hey, sem var í eigu Sýnar, og Nema, dótturfélags Tjaldurs, sem fór formlega í gegn 1. janúar 2019 . Við kaupin eignaðist Sýn 49,9% hlut í sameinaða félaginu, og Tjaldur 50,1%. Auk þess fékk Sýn þá greiðslu upp á 22 milljónir danskra króna, um 400 milljónir íslenskar.

Sala óvirkra farsímainnviða í höfn

Sýn sendi einnig frá sér tilkynningu í gærkvöldi um að félagið hafi undirritað samninga við erlenda fjárfesta um sölu og endurleigu á óvirkum farsímainnviðum félagsins. Væntur söluhagnaður Sýnar er sagður vera yfir sex milljörðum króna.

Ekki er tekið fram hvaða kaupendur sé um að ræða en Viðskiptablaðið sagði frá því í byrjun febrúar að félag í stýringu bandaríska framtaksfjárfestingafélagsins Digital Colony væri langt komið með að ljúka kaupum á óvirkum fjarskiptainnviðum af Sýn og Nova fyrir um 13 milljarða króna.

Samhliða sölunni var gerður langtímaleigusamningur, sem tryggja mun áframhaldandi aðgang félagsins að hinum óvirku farsímainnviðum. Allur virkur farsímabúnaður verður áfram í eigu Sýnar. Samningarnir eru með fyrirvara um samþykki Samkeppniseftirlitsins, auk annarra hefðbundinna fyrirvara um viðskipti af þessum toga.