365 hf. keypti í gær þriggja prósenta hlut í Skeljungi en miðað við gengi á verði hluta í félaginu var um rúmlega 500 milljóna viðskipti að ræða. Þetta kemur fram í tilkynningu til Kauphallarinnar.

Þá hefur 365 gert framvirkan samning um kaup á 100 milljón hlutum í Skeljungi. Gildistími hans rennur út í lok mánaðar. Þar er undir 4,64 prósent hlutur í fyrirtækinu. Alls má því áætla að keypt hafi verið bréf fyrir tæplega 1,3 milljarð.

Fyrir átti 365 ekkert í Skeljungi en eftir viðskiptin mun hlutur þess nema 7,67 prósentum. Það þýðir að fyrirtækið verður þriðji stærsti hluthafi Skeljungs, og langstærsti einkafjárfestirinn, en stærstir hluthafa eru Gildi, með 9,2 prósent hlut, og Kvika með rúm 8,1 prósent. Frjálsi lífeyrissjóðurinn fer síðan með 6,52 prósent.

Samhliða kaupum í Skeljungi hefur 365 losað um hluta af tæplega fjögur prósent hlut sínum í Högum en þetta kemur fram hjá Fréttablaðinu . Þar kemur ennfremur fram að eftir viðskiptin eru 365 miðlar enn á meðal stærstu einkafjárfesta í Högum.