Landsbanki Íslands hefur selt 12,1% eignarhlut sinn í Stoðum hf. fyrir 3,3 milljarða króna. Fossar markaðir lögðu fram tilboðið, fyrir hönd fjárfesta. Viðskiptin verðmeta félagið á ríflega 27 milljarða króna. Frá þessu er greint á heimasíðu Landsbankans.

Alls tóku þrettán fjárfestar þátt í söluferlinu sem auglýst var þann 23. nóvember síðastliðinn. Að eigin sögn fór söluferlið fram í samræmi við stefnu Landsbankans um sölu eigna og var öllum opið sem uppfylltu skilyrði um að teljast hæfir fjárfestar.

Í lok júlí á þessu ári námu heildareignir Stoða um 25 milljörðum króna og eigið fé einnig um 25 milljarða og er félagið því óskuldsett.