Bandaríska fæðubótaefnafyrirtækið Nutrition 21greindi frá því í vikunni að það hefði samþykkt yfirtöku á Iceland Health, sem er bandarískt fyrirtæki í einkaeigu og selur Omega-3 vörur þar í landi. Íslenska fyrirtækið Lýsi er með einkaréttarsamning við Iceland Health um framleiðslu og þróun á vörum fyrir fyrirtækið og að sögn Katrínar Pétursdóttur, framkvæmdastjóra Lýsis, mun yfirtakan hafa góð áhrif á sölu á lýsisafurðum í Bandaríkjunum.

Katrín tekur fram að Lýsi hafi ekki átt hlut í Iceland Health. Hún segir Nutrition 21 hafa heimsótt verksmiðju fyrirtækisins í Reykjavík og að verksmiðjan hafi framleiðslugetu til að anna aukinni eftirspurn. Hingað til hafa vörur Iceland Health verið fáanlegar á netinu og einblínt hefur verið á sjónvarpssölu. En með yfirtöku Nutrition 21 á fyrirtækinu opnast smásölumarkaðurinn, segir Katrín, og dreifingarleiðir styrkjast.

Nutrition 21 segir að mikil vaxtartækifæri séu sölu á Omega-3 vörum í Bandaríkjunum og vonast fyrirtækið til að stækka og þróa vörumerkið í framtíðinni. Af fæðubótaefnum í Bandaríkjunum eru Omega-3 vörur í hvað hröðustum vexti, en sala á Omega-3 fitusýrum jókst um 106% frá 2005 til 2006, segir í fréttatilkynningu frá félaginu.

Heildartekjur Iceland Health síðustu tólf mánuði voru 26 milljónir Bandaríkjadala, eða 1,8 milljarðar króna. Nutrition 21 mun fjármagna yfirtökuna með útgáfu átta milljón hlutabréfa, einni milljón Bandaríkjadala í reiðufé, 2,5 milljónum dala í þriggja ára skuldabréfaútgáfu og 2,5 milljóna arðgreiðslum. Nutrition 21 er skráð í kauphöllina í New York.