Franski bílaframleiðandinn Renault hefur komist að samkomulagi um að selja hlut sinn í rússneska fyrirtækinu Avotvaz, sem framleiðir mest seldu Lödu bílana, fyrir tvær rúblur eða sem jafngildir fjórum íslenskum krónum.

Samningurinn felur í sér 2,2 milljarða evra niðurfærslu hjá Renault sem mun afhenda borgaryfirvöldum í Moskvu allan hlut sinn í starfsemi félagsins í Rússlandi og 67,7% hlut sinn í Avtovaz til NAMI, bílarannsóknastofnunar sem er styrkt af rússneska ríkinu. Renault fær eina rúblu fyrir hvorn hlut, samkvæmt heimildum Financial Times . Franski bílaframleiðandinn áskilur sér rétt til að kaupa hlutina aftur innan sex ára.

Um 10% af sölu og helmingur af rekstrarframlegð Renault má rekja til Rússlandsmarkaðarins. Renault fjárfesti fyrst í Rússlandi árið 2007 með hvatningu og blessun Vladímír Pútín Rússlandsforseta. Um 45 þúsund manns starfa fyrir Renault í Rússlandi.