Það ríkti ekki mikil bjartsýni í íslensku atvinnulífi haustið 2011, þegar það fór að kvisast út að Skúli Mogensen væri að hugleiða stofnun flugfélags í krafti fjármagns, sem honum hafði áskotnast á erlendri grundu.

Þá þegar sáust merki þess að íslenskur ferðaiðnaðurinn væri að taka við sér með áður óþekktum hætti fyrir tilstilli náttúrumagna eins og eldvirkni og gengisfalls krónunnar, þó sjálfsagt hafi fáa órað fyrir því sem í vændum var.

Í október 2011 var greint frá því að flugfélagið WOW Air tæki til starfa, en auk Skúla voru þeir Matthías Imsland, fyrrverandi forstjóri Iceland Express, og Baldur Oddur Baldursson, fyrsti framkvæmdastjóri WOW Air, meðal eigenda.

Þegar frá fyrsta degi var ljóst að WOW Air væri ekki flugfélag með gamla laginu. Nafnið eitt gaf auðvitað vísbendingu um að þar væri áhersla lögð á ferskleika og lífsstíl, en menn sáu það líka á auglýsingum frá félaginu, að þar kvað við nýjan tón, módelmyndir af brosmildum flugliðum, í lítillega retró einkennisklæðum í hinum sterka og óvenjulega einkennislit félagsins. Ekki kom það þó síður fram þegar nýsprautaðar þotur félagsins birtust á hlaðinu við Leifsstöð.

Að því leyti var markaðskynning WOW Air einstaklega vel heppnuð, en hún naut einnig frægðar Skúla Mogensen, sem hikaði ekki við að láta mynda sig í gamaldags flugmannsjakka með sigurbros á vör, og fór í jómfrúarferð félagsins sem flugþjónn.

Viðtökurnar létu ekki á sér standa, en þær birtust fyrst í viðbrögðum við atvinnuauglýsingum félagsins, en um 600 manns sóttu þar um margvísleg störf, flestir sem flugliðar. Upphaflega var ráðið í um 60 stöður hjá WOW, auk flugmanna, en því var beint til upphaflegs flugrekstraraðila félagsins, að ráða íslenska flugmenn eftir því sem kostur væri.

Undir lok nóvember var félagið og fyrirhugaðir áfangastaðir þess sumarið 2012 kynnt á blaðamannafundi um leið og bókunarvefurinn var opnaður af sr. Jónu Lovísu Jónsdóttur, vaxtarræktarkonu og presti. Blessun hennar hrökk þó ekki til, því netþjónarnir voru við að bugast undan álaginu fyrsta kastið, þegar um 500 fyrirspurnir bárust á sekúndu hverri.

Flogið skyldi til 12 áfangastaða í Evrópu frá 1. júní 2012 – Alicante, París, Lyon, Basel, Köln, Stuttgart, Berlín, Lundúnir, Varsjá og Kraká – en um 130.000 sæti í boði. Fyrirsjáanlegt var að með því fjölgaði flugferðum til og frá landinu um 8%, en aukið sætaframboð beggja flugfélaganna reyndist vera lykillinn að stórauknum ferðamannastraumi til landsins.

Verðstríð og hörð samkeppni

Er komið var fram á 2012 var haldið áfram að efla markaðsstarfið, en fyrst og fremst brast á með verðstríði milli WOW og Icelandair, löngu áður en fyrsta vélin fór í loftið. Það birtist aðallega í fargjöldum til Lundúna og Kaupmannahafnar, þar sem verðið fór fljótlega niður í 10.000 krónur aðra leiðina.

Samkeppnin stóð þó ekki einvörðungu við Icelandair, heldur kannski ekki síður við Iceland Express, sem mátti ekki við miklu þegar þar var komið og var rekið með miklu tapi. Hugsanlega áttuðu menn sig þó ekki á hörkunni í samkeppninni, fyrr en WOW Air og flugþjónustan Keflavík Flight Services (KFS) kærðu Iceland Express fyrir viðskiptanjósnir í júlí 2012 eftir að starfsmaður Isavia varð þess var í hefðbundnu eftirliti að starfsmenn Iceland Express á Keflavíkurflugvelli hleruðu fjarskipti KFS til þess að afla upplýsinga um farþegatölur WOW Air og annað sem sneri að rekstri félagsins.

Markaðsstarfið og farmiðasalan þetta fyrsta sumar gengu ákaflega vel og ljóst að eftirspurnin var langt umfram framboð. Þá gæs þurfti að grípa, en reksturinn stóð ekki undir umfangsmikilli markaðssókn, auknu sætaframboði og örum vexti. Í sumarlok 2012 var því kynnt að hlutafé WOW Air hefði verið aukið um 500 milljónir króna, en Títan, fjárfestingafélag Skúla, var skráð fyrir allri aukningunni. Það var þó ekki síður til marks um að aukinn áhuga Skúla á verkefninu, að hann tók við af Baldri sem forstjóri félagsins. Um leið vék hann úr stjórnarformannssæti, en Liv Bergþórsdóttir tók við því hlutverki.

Áfangastöðunum var fækkað yfir veturinn, en jafnframt voru drög lögð að því að þétta áætlunina sumarið 2013 með mun tíðari ferðum til Lundúna og Kaupmannahafnar, 8 sinnum í viku til Lundúna og 6 sinnum til Kaupmannahafnar. Auk þess var tekið að fljúga til nýrra áfangastaða, Amsterdam, Mílanó og Düsseldorf. Þessi aukna ferðatíðni kallaði á fleiri flugvélar, svo gengið var frá frá leigu á þremur Airbus A320 vélum. Með því var gert ráð fyrir að sætaframboð félagsins yrði tvöfaldað frá fyrra ári, upp í 280.000 sæti.

Iceland Express keypt af markaði

Fleiri tíðinda var þó að vænta þessa daga, en hinn 23. október urðu kaflaskil hjá félaginu þegar það keypti flugrekstur og áætlunarflug Iceland Express, sem um leið lagði upp laupana. Margir hinna 90 starfsmanna Iceland Express fóru með rekstrinum yfir til WOW, en ekki þó allir. Hagrætt var í áætlunum, svo samanlagt sætaframboð var ekki jafnmikið og hefðu þau haldið áfram hvort í sínu lagi. Eftir kaupin var aðeins starfrækt eitt eiginlegt lágfargjaldaflugfélag á Íslandi, þó flaggflugfélagið Icelandair hafi vissulega öðrum þræði keppt á því sviði líka.

Þó að vöxtur WOW gengi vel fyrir sig, var reksturinn þungur og ekki skyldi heldur gleyma því að viðskiptaumhverfið var enn í klakaböndum hrunsins, fjármagnshöft og hvaðeina, en Skúli kom með talsvert fé að utan í gegnum fjárfestingarleið Seðlabankans. Þó hann sæi tækifærin vel og vildi nýta þau blöskraði honum jafnframt ástandið og lá ekki á þeim skoðunum. Hann gagnrýndi „pólitískt getuleysi stjórnvalda“ og sagði að fyrirtæki og fjárfestar ættu erfitt með að áætla fram í tímann þar sem fyrirætlanir ríkisstjórnar og Seðlabanka væru á huldu, væru  þær á annað borð fyrir hendi.

„Óvissan er verst fyrir fyrirtækin í landinu og fjárfesta almennt, ekki síst þegar leikreglum er breytt jafnóðum og jafnvel eftir á.“ Áhrif WOW Air voru ekki einungis bundin við ferðageirann, því í lok árs 2012 kom á daginn að verðbólga á síðari hluta ársins var talsvert minni en ráð hafði verið fyrir gert. Þar réði miklu óvænt flugfargjaldalækkun í aðdraganda jóla, en vaninn var að þá hækkuðu fargjöldin verulega.

Það var þó ekki þannig að áætlanir WOW Air gengju fyllilega eftir. Hið aukna sætaframboð, markaðssetning og samningar við erlendar ferðaskrifstofur, í bland við stóraukna umfjöllun erlendra fjölmiðla um hið nýuppgötvaða Ísland, varð til þess að auka eftirspurn enn frekar, svo áætlunum var breytt til samræmis við það.

Það skilaði sér bæði í stórauknum fjölda farþega og betri sætanýtingu, en hlutur erlendra ferðamanna jókst stórum miðað við innfædda. Í upphafi árs 2013 höfðu tvöfalt fleiri ferðamenn bókað ferðir með WOW Air til Íslands en á sama tíma árið áður. Þar voru Bretar, Þjóðverjar og Frakkar fremstir í flokki, en jafnframt höfðu WOW-menn ávæning um frekari eftirspurn af stóraukinn umferð á vefsvæði flugfélagsins.

WOW verður alvöru flugfélag

Það var um þetta leyti sem hugmyndir um stefnu félagsins tóku að skýrast, það var ekki lengur skemmtileg tilraun, heldur vænlegt viðskiptatækifæri í meira lagi. Vorið 2013 sótti félagið því um eigið flugrekstrarleyfi, en það var nauðsynlegur liður í frekari vexti félagsins, ekki síst til þess að geta hafið Ameríkuflug árið 2014, eins og áform voru kynnt um. Með leyfinu fékk félagið stjórn yfir öllum rekstri og var ekki lengur háð öðrum flugrekstraraðila.

Þetta voru söguleg tíðindi, ekki aðeins fyrir WOW air, því um 30 ár voru liðin síðan nýtt flugrekstrarleyfi var síðast veitt í landinu. WOW hélt áfram að hækka flugið þá um sumarið, en í sumarlok var kynnt að félagið hefði verið rekið með 794 milljóna króna tapi árið 2012. Skúli kvaðst ánægður með árangurinn, reiknað hefði verið með taprekstri fyrstu árin, en félagið hefði náð markmiðum sínum og vel það.

Ekki þó alveg öllum, því fyrirætlanir um Ameríkuflug voru settar í uppnám vegna þess að félagið fékk ekki úthlutað nauðsynlegum brottfarartímum í Keflavík. Hinn aukni ferðamannastraumur til landsins kom þó ekki aðeins íslensku flugfélögunum til góða, því um leið glæddist áhugi erlendra félaga á flugi til Íslands. Samkeppnin harðnaði því enn og WOW svaraði því með frekari lækkun á miðaverði.

Þetta voru miklir uppgangstímar hjá félaginu og handagangur í öskjunni, eins og sjá mátti á því að veltan fjórfaldaðist milli ára, fór úr 2½ milljarði króna árið 2012 í 10 milljarða árið 2013. Það endurspeglaðist einnig í aukinni starfsmannaveltu, líka meðal stjórnenda félagsins. Sumir hættu að eigin frumkvæði, aðrir ekki.

Tap af rekstri WOW árið 2013 nam 330 milljónum króna, en uppsafnað tap þessara fyrstu tveggja ára í rekstri félagsins var ríflega 1.100 milljónir króna. Eigið fé félagsins var 350 milljónir króna í árslok 2013, þrátt 500 milljóna hlutafjáraukningu á árinu, en þegar þar var komið sögu var það að fullu í eigu Títans, fjárfestingafélags Skúla.

Ameríkuflugið hófst loks í upphafi árs 2015, hálfu ári síðar en upphaflega var áætlað. Sú töf hafði kostað félagið skildinginn, en það var félaginu mjög þýðingarmikið að komast inn á Bandaríkjamarkað, enda mikil sóknarfæri. Um vorið var enn fjölgað í flugvélaflota félagsins til þess að anna síauknum sætafjölda.

Aukin umsvif

Þegar þarna var komið við sögu hafði WOW Air ekki aðeins gert sig gildandi á sviði flugreksturs, heldur var það farið að færa út kvíarnar á ýmsum skyldum sviðum, svo sem ferðaskrifstofu- og hótelrekstri, en jafnframt var farið að huga að miklum framkvæmdum við smíði höfuðstöðva og hótelbygginga í Kársnesi í Kópavogi.

Ekki síður urðu menn þó varir við ýmiss konar nýbreytni hjá félaginu, t.d. tengt hjólreiðum, eins og menn sáu af hinu árvissu reiðhjólakeppni WOW cyclothon og hjólaleigunni WOW citibike, þar sem saman fóru áhugamál, góðgerðir, markaðsstarf og hagnaðarvon. Segja má að um það leyti hafi WOW Air verið orðið einskonar óskabarn þjóðarinnar, það var vinsælt félag samkvæmt könnunum og þrátt fyrir að atvinnuástandið væri orðið alveg prýðilegt sóttust um 1.500 manns eftir því að verða flugliðar hjá félaginu, þegar auglýst var eftir starfsfólki haustið 2015.

Í sömu mund hélt flugreksturinn áfram að vaxa og dafna, bæði hvað varðaði farþegafjölda og sætanýtingu. Hinn gegndarlausi vöxtur sást vel á því að WOW Air flutti fleiri farþega í júlímánuði 2015 en allt árið 2012. Eins og áður var vöxturinn ekki ókeypis, en síðla árs var greint frá því að tap WOW Air eftir skatta árið 2014 hefði numið 560 milljónum króna. Tapið var allt á fyrri helmingi ársins en alls jukust tekjur félagsins um 8%, voru 10,7 milljarðar króna 2014 samanborið við 9,9 milljarða árið á undan, en EBITDA ársins 2015 reyndist neikvæð um 536 milljónir króna. Þarna höfðu tafirnar á Ameríkufluginu kostað mikið, en Skúli lagði það mjög að dyrum Isavia.

Viðsnúningur og vöxtur

Fleiri blikur voru á lofti. Lykilatriði í hinu nýja íslenska flugævintýri hafði verið sílækkandi eldsneytiskostnaður, en í ársbyrjun 2016 tók hann að hækka á ný, sem setti strik í reikninginn. Félagið hafði fest eldsneytisverð 2014 og því orðið af miklum verðlækkunum, en það var varla fyrr búið að losa það, þegar heimsverð tók að hækka á ný.

Uppgjörið fyrir árið 2015 jók mönnum þó bjartsýni, en þá skilaði félagið 1,1 milljarðs króna hagnaði eftir skatta, og frekari vöxtur enn ráðgerður. Góð innistæða  virtist fyrir því en í maí 2016 fluttu íslensku flugfélögin tvö samtals yfir 420.000 farþega til og frá landinu. Mikill munur var þó á vextinum, því farþegafjöldinn hjá WOW Air jókst um 115% frá sama mánuði árið áður, en um 20% hjá Icelandair. Samtals voru félögin með 40 farþegaþotur í flotum sínum, 28 hjá Icelandair en 12 hjá WOW Air, en bæði ráðgerðu verulega fjölgun á fararskjótum.

Heildartekjur WOW air á fyrri helmingi ársins 2016 voru 11,7 milljarðar og jukust um 107% á milli ára. EBITDA á öðrum ársfjórðungi nam 1,2 milljörðum og jókst um 930 milljónir á milli ára. Hagnaður félagsins á öðrum ársfjórðungi var 400 milljónir samanborið við 185 milljóna tap á öðrum ársfjórðungi árið 2015. Óhætt var að tala um viðsnúning í rekstrinum og bjatrtsýnin minnkaði ekki við það. Þjóðin virtist sama sinnis, því umsóknir um störf hjá WOW árið 2016 voru um tíu þúsund talsins, sem nam liðlega 5% alls vinnuafls í landinu!

Í janúar 2017 var svo komið að þriðjungur farþega um Leifsstöð var á vegum WOW Air. Uppgjörið á 2016 var líka mjög hagfellt, en þá hagnaðist félagið um 4,3 milljarða króna, samanborið við 1,5 milljarða árið áður. Tekjurnar jukust um 111% milli ára og námu 36,7 milljörðum króna árið 2016, en EBITDA hagnaður nam 5,6 milljörðum króna eða 15,2% af tekjum. Farþegarnir höfðu verið 1,67 milljónir, en WOW ráðgerði að fljúga alls með um 3 milljónir á árinu 2017, þó samkeppnin færi enn harðnandi og 26 félög alls um hituna í millilandafluginu.

Þessar fyrirætlanir um farþegafjöldann gengu raunar ekki fyllilega eftir, en nokkuð nærri þó, því farþegarnir 2017 reyndust 2,8 milljónir þegar upp var staðið. Það voru því vafalaust kærkomnar sárabætur þegar WOW fór fram úr Icelandair í farþegaflutningum í janúar 2018, flutti 217 þúsund farþega til og frá landinu , en Icelandair 209 þúsund. Jafnframt var farþegafjöldi WOW enn að aukast verulega milli ára, en stóð í stað hjá Icelandair, sem þegar þarna kom við sögu átti augljóslega við verulegan vanda að etja í áætlanagerð og rekstri, eins og kom svo sannarlega í ljós síðar á árinu.

Fjárhagsörðugleikar láta á sér kræla

WOW Air var hins vegar engan veginn í forsal vinda. Síðla árs 2017 hafði færsluhirðingarfyrirtækið Kortaþjónustan (Korta) orðið fyrir áfalli þegar breska lággjaldaflugfélagið Monarch fór í greiðslustöðvun og  hætti flugfélagið starfsemi. Hvíslað var um að WOW Air hefði átt þar verulega fjármuni í pípunum, sem sett hefði fjárstreymið mjög úr skorðum, en um fimmtungur af greiðslukortasölu WOW Air fór í gegnum Kortaþjónustuna.

Þá voru og uppi ýmis merki um að mjög væri farið að hægja á vextinum í íslenska ferðageiranum eftir gegndarlausan uppvöxt áranna á undan. Um leið bárust af því fregnir að meðaltekjur á farþega hefðu dregist saman hjá flugfélögunum, sem vitaskuld þrengdi frekar að þeim. Áhyggjur af stöðu flugfélaganna jukust dag frá degi, einkum þó gagnvart Icelandair, sem skráð er á markað og með sýnilegra bókhald fyrir vikið, en um fjárhag WOW vissu menn minna þó flestir reiknuðu með að þyngra rekstrarumhverfi myndi tæplega veitast því léttara. Mikill taprekstur 2017 var sagður hafa skilað sér í mun lakari eiginfjárstöðu, sem kallaði á sérstakar aðgerðir.

Endurfjármögnun hafin

Fyrstu merki þess voru að hlutafé WOW Air var aukið um ríflega tvo milljarða króna á öðrum ársfjórðungi, en það gerði Skúli Mogensen með því að leggja eignarhlut sinn í Cargo Express ehf. inn í WOW Air, auk þess sem hann breytti kröfum sínum á hendur félaginu í eigið fé.

Ljóst var þó að meira þyrfti til og var því hafist handa við skuldabréfaútboð. Í fjárfestakynningu var augljóst að mjög hafði sigið á ógæfuhliðina hjá félaginu. Rekstrartapið (EBIT) hefði numið um 4,8 milljörðum króna, á tólf mánaða tímabili frá júlí 2017 til júní 2018, en rekstrarspá fyrir árið 2018 í heild sinni gerði ráð fyrir 3 milljarða króna rekstrartapi. Eigið fé WOW Air í lok júní var um 1,5 milljarðar króna, svo ekki var mikið borð fyrir báru.

Vaxtaberandi skuldir félagsins námu þá 65 milljörðum króna, en ljóst að þær myndu hækka hressilega eftir skuldabréfaútboðið, en þar var miðað við 5,5 milljarða króna lágmark og ekki frábær vaxtakjör í boði. Ekki varð það svo til þess að bæta geð guma, að um svipað leyti endurskoðaði Isavia farþegaspá sína og taldi töluvert færri myndu fara um völlinn árið 2018 en vonast hafði verið til.

Um miðjan september tilkynnti félagið að fjármögnun félagsins væri tryggð, þar ræddi um 6,4 milljarða króna á 9% vöxtum ofan, auk trygginga. Í framhaldinu var kynnt um ýmsa hagræðingu, breytta áætlun og aukna gjaldtöku, en þrátt fyrir það ríktu áfram miklar efasemdir um lífvænleika félagsins.

Icelandair kaupir WOW og þó ekki

Það dró hins vegar verulega til tíðinda í upphafi nóvember, þegar greint var frá því að eftir skammar viðræður hefði orðið úr ráði að Icelandair keypti allt hlutafé WOW Air, en endanlegt kaupverð – á bilinu 1-3,6 milljarðar – myndi ráðast af áreiðanleikakönnun.

Vafalaust vörpuðu margir öndinni léttar, þó ýmsir veltu fyrir sér áhrifunum á samkeppni í flugsamgöngum til og frá landinu. Þess sá ekki síst stað í gengi Icelandair í kauphöllinni, sem skoppaði upp um helming í mögnuðum viðskiptum, þó eitthvað sjatnaði verðið áður en yfir lauk. Á daginn kom þó að það var ótímabært að taka upp kampavínið, því á næstu dögum tóku að renna tvær grímur á menn.

Nánar er fjallað um málið í tímariti Frjálsrar verslunar. Hægt er að gerast áskrifandi með því að senda póst [email protected] .