*

sunnudagur, 28. febrúar 2021
Innlent 15. mars 2020 16:05

Sementsala vísbending um byggingarmagn

Fallandi sementsala gefur vísbendingar um að hægja sé á íbúðabyggingu. Aðrar upplýsingar af skornum skammti.

Júlíus Þór Halldórsson
Haraldur Guðjónsson

Áreiðanlegar upplýsingar um magn og tegundir íbúðarhúsnæðis í byggingu eru af skornum skammti hér á landi, og það sem þó er til birt sjaldan og oft seint. Vísitala sementsölu getur í slíku umhverfi gefið nokkra vísbendingu um þróun mála, en hún hefur fallið hratt síðastliðin misseri.

Eins og sjá má á grafinu hefur vísitalan – sem gefin er út mánaðarlega – fylgt sveiflum frá aldamótum nokkuð vel eftir. Það sem vekur þó sérstaka athygli er þróunin síðustu mánuði. Samanborið við sama mánuð árið áður hefur vísitalan farið lækkandi í ár samfellt, og síðustu þrjá mánuði hefur hún fallið um á bilinu 28-35% á þann mælikvarða. Hlaupandi meðaltal hennar – sem tekur út árstíðasveiflur – hefur fallið um fimmtung á 12 mánuðum.

Aðrar tölur um íbúðamagn í byggingu eru meðal annars talning Samtaka Iðnaðarins, sem síðast var birt í september síðastliðnum. Þá birtir Hagstofan árlegar tölur um fjölda íbúða sem byrjað er á, eru í byggingu, og eru fullgerðar, en þær tölur líða fyrir seinagang við gagnaskil byggingafulltrúaembætta, og komu síðast út fyrir árið 2018.

Erfitt að draga miklar ályktanir
Ari Skúlason, hagfræðingur hjá Landsbankanum, segir þó varhugavert að draga of miklar ályktanir af tölum um sementsölu. „Sement er notað í margt fleira en íbúðarhús: atvinnuhúsnæði, hótel og fleira er kannski nærtækast,“ segir Ari, en líklegt megi telja að bygging slíks húsnæðis sé að dragast saman mun hraðar en íbúðarhúsnæðis um þessar mundir.

„Það gefur þó auga leið að íbúðabygging er að minnka. Það er að hægja á, það gengur illa að selja, og verið að byggja eitthvað sem ekki allir vilja,“ segir hann, og vísar þar til íbúða – sér í lagi í dýrari kantinum – sem illa hefur gengið að selja. „Þetta fer svolítið eftir svæðum.“

Upplýsingaskortur gert markaðinn óskilvirkari
Ari segir lítinn vafa leika á því að upplýsingaskorturinn hafi slæm áhrif á byggingageirann. Verktakar renni blint í sjóinn með það hvernig íbúðir séu á leið á markaðinn hverja stundina, og þar með hvað sé líklegt til að verða skortur á eða offramboð á næstunni.

„Við vitum alltof lítið hvað er til af hvers konar íbúðum hvar á hverjum tíma. Það liggur í augum uppi að seinustu árin hafa svo til allir verið að byggja það sama. Menn hafa þurft að finna það út sjálfir hvað er verið að byggja á hverjum stað, það eru ekki til neinar opinberar upplýsingar um það. Það er ekkert sem sýnir þér að það sé verið að byggja samskonar blokkir og þú í sama hverfi.

Auðvitað vita menn sem eru virkir á og vanir þessum markaði það mun betur en meðalmaðurinn hvað er í gangi, en eftir stendur að of mikið hefur verið byggt af sumu en of lítið af öðru.“

Nánar má lesa um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð, aðrir geta skráð sig í áskrift hér.