Sementsverksmiðjan ehf. tapaði 70 milljónum króna árið 2013 samkvæmt ársreikningi. Árið 2012 nam tap félagsins 221 milljón króna.

Skuldir félagsins námu 615 milljónum í fyrra samanborið við 723 milljónir árið á undan. Eigið fé var neikvætt um 226 milljónir samanborið við 155 milljónir árið 2012.

Í lok desember í fyrra var gert samkomulag um fjárhagslega endurskipulagningu Sementsverksmiðjunnar. Í skýrslu stjórnar kemur fram að á þessu ári hafi skuldum að fjárhæð 353 milljónum verið breytt í hlutfé og láni frá móðurfélagi breytt í víkjandi lán.

„Eigið fé félagsins að loknum þessum aðgerðum er jákvætt og það er mat stjórnar félagsins að með fjárhagslegri endurskipulagningu félagsins sé rekstur þess tryggður,“ segir í skýrslunni.

Verksmiðjan er að stærstum hluta í eigu félagsins L1022 ehf., sem á 73,69%, Arion banka, sem á 23,61% og Lýsingar, sem á 2,7%. Félagið L1022 er í eigu Björgunar ehf. og Heildelberg Cement Iceland ehf.