Vegna mikilla verðhækkana á kolum kemst Sementsverksmiðjan á Akranesi ekki hjá því að hækka verð á sementi frá og með 1. júlí næstkomandi.

Þetta kemur fram í tilkynningu frá verksmiðjunni.

Þar kemur fram að gjallbrennsluofn Sementsverksmiðjunnar er kynntur með kolum „en verð á kolum fylgir heimsmarkaðsverði á olíu sem hefur hækkað verulega að undanförnu,“ segir í tilkynningunni.

Þá segir að kolafarmur sem verksmiðjan hefur nýlega keypt og er á leið til landsin er 130% dýrari en kolafarmur sem verksmiðjan keypti í desember 2007.

„Vegna aukins orkukostnaðar neyðist Sementsverksmiðjan því að hækka útsöluverð sements frá 1. júlí næstkomandi um 13%,“ segir í tilkynningunni.