Íslenska fyrirtækið Creditinfo, sem er með starfsemi í 33 löndum, hefur gert 2,3 milljarða samning við seðlabanka ríkisins Óman á Arabíuskaga að því er Fréttablaðið greinir frá.

Felst samningurinn í sér að selja bankanum tölvukerfi til að meta umsækjendur lána og veita þjónustu, og verður komið á fót skrifstofu Creditinfo í landinu. Mun starfsfólk héðan frá Íslandi og frá Tékklandi flytjast þangað til að setja hana upp.

Reynir Grétarsson stjórnarformaður Creditinfo segir að félagið sé að taka við af kerfi sem hafi verið innleitt af keppinaut félagsins.

„Það var ekki að virka nógu vel, meðal annars af því að ekki var til staðar næg þekking á því hvernig ætti að reka kerfið og þróa aðrar vörur en einfalda upplýsingamiðlun um skuldastöðu,“ segir Reynir sem segir þetta langstærsta samning í þessum geira í langan tíma.

Reynir segir stjórnvöld í Óman vilja með þessu auka fjölbreytileika efnahagslífsins, sem er mjög háður olíuframleiðslu.

„Þeir sjá aðgang að lánsfjármagni sem lykilatriði fyrir þá sem vilja fjárfesta í nýjum verkefnum í landinu,“ segir Reynir en stjórnvöld vilji að almenningur hafi greiðan aðgang að lánsfjármagni. „Skilvirk kerfi með lánshæfisupplýsingum eru forsenda þess.“