Enn er ósamið við um 40 þúsund launþega á almennum og opinberum vinnumarkaði til viðbótar við þá samninga sem skrifað var undir nú fyrir helgi, en þeir tóku til 65 til 70 þúsund launþega á almenna markaðnum. Þetta kemur fram í Morgunblaðinu .

Þar er greint frá því að Samtök atvinnulífsins hafi ekki náð samningum við stéttarfélög með rúmlega 20 þúsund félaga í yfirstandandi samningalotu. Annar eins fjöldi starfsmanna ríkis og sveitarfélaga bíður samninga, en sem kunnugt er hafa ekki enn náðst samningar milli ríkisins og Bandalags háskólamanna sem verið hefur í verkfalli í lengri tíma.

Þorsteinn Víglundsson, framkvæmdastjóri Samtaka atvinnulífsins, segir í samtali við Morgunblaðið að ekki sé ólíklegt að kostnaðarhækkanir vegna nýgerðra kjarasamninga muni leiða til verðhækkana á þjónustu í sumum atvinnugreinum. Launahækkanir séu alveg á mörkum þess mögulega og ekki sé ólíklegt að verðbólguþrýstingur skapist.

„Tíminn verður að leiða það í ljós hvernig úr þessu vinnst. Við vonum að fyrirtæki muni beita öllum ráðum til að koma í veg fyrir hækkanir en ljóst er að í sumum atvinnugreinum munu hækkanir óhjákvæmilega fylgja í kjölfarið,“ segir Þorsteinn.