Magnús Óli Ólafsson formaður Félags atvinnurekenda segir að í nýjum stjórnarsáttmála eigi heima ýmsir hagsmunir fyrirtækja, ekki síst þeirra minni og meðalstóru, Hefur hann sent öllum stjórnmálaflokkunum sem náðu kjöri á Alþingi í kosningunum bréf þar sem vakin er athygli á þeim atriðum sem félagið telur að eigi heima í stjórnarsáttmála til að tryggja öflugt atvinnulíf í landinu.

Magnús Óli segir stöðugleika og áframhaldandi lækkun vaxta vera stærsta hagsmunamálið og því þurfi aðhald og ábyrgð í ríkisfjármálum til að styðja við peningastefnuna.

Önnur atriði sem Magnús Óli nefnir sérstaklega eru lækkun tryggingargjalds, einföldun regluverks, þar með talið að tilkynningarskylda komi í stað flókinna og dýrra leyfisveitinga. Haldið verði áfram að einfalda skattkerfið, meðal annars með einu samræmdu virðisaukaskattsþrepi sem verði mun lægra en efra þrepið er í dag.

Einnig nefnir hann að félagið vilji að eftirlitsgjöld endurspegli raunkostnað við eftirlitið, þjónustukaup og kaup á vörum ríkisins verði í auknum mæli boðin út, samkeppnishömlur ýmis konar verði afnumdar en á móti verði hömlur settar á samkeppni ríkisfyrirtækja við einkaaðila.

Loks nefnir hann að átak verði í gerð fríverslunarsamninga við önnur ríki, ýmist tvíhliða eða á vettvangi EFTA. Nánar má lesa um málið á vef FA .