*

miðvikudagur, 26. janúar 2022
Innlent 21. ágúst 2017 13:42

Semja um leiguverkefni í Suður-Ameríku

Loftleiðir og Icelandair hafa gert samkomulag við suður-ameríska flugfélagið Latin American Wings um leigu á Boeing 757-200 þotu.

Ritstjórn
Gunnhildur Lind Photography

Loftleiðir Icelandic, dótturfélag Icelandair Group og suður-ameríska flugfélagið LAW (Latin American Wings) hafa gert samning um leigu á Boeing 757-200 þotu frá og með október í vetur. Þetta kemur fram í fréttatilkynningu frá Icelandair. 

LAW er flugfélag sem sinnir áætlunarflugi til Argentínu, Chile, Dóminíska Lýðveldisins, Haíti, Perú og til Venezúela.  Floti félagsins samanstendur í dag af fimm Boeing 737-300 þotum, en með tilkomu samningsins við Loftleiðir Icelandic mun félagið geta hafið flug til New York og Miami í Bandaríkjunum frá Caracas í Venezúela og frá Santiago í Chile. Boeing 757 þotan sem leigð verður til LAW kemur úr flota Icelandair og verður flogið af flugmönnum Icelandair að því er kemur fram í tilkynningunni.

„Það er mikið ánægjuefni að þessi samningur er í höfn. Mótaðilar okkar eru að kaupa þá reynslu og sérþekkingu sem starfsfólk fyrirtækja innan Icelandair Group býr yfir og við hlökkum til samstarfsins“, segir Halldór Halldórsson, framkvæmdastjóri hjá Loftleiðum Icelandic.

Nýlega var tilkynnt um samning Loftleiða Icelandic við TACV Cabo Verde Airlines og ríkisstjórn Grænhöfðaeyja um samstarf við endurskipulagningu flugfélagsins TACV Cabo Verde Airlines.