Arion banki hf. og Kvika banki hf., hafa gert með sér samning um viðskiptavakt á sértryggðum skuldabréfum á Nasdaq OMX Iceland hf. útgefnum af Arion banka. Þetta kemur fram í tilkynningu á vef kauphallarinnar.

Tilgangur samningsins er að efla viðskipti með þau skuldabréf sem samningurinn tekur til í því skyni að eðlilegt markaðsverð skapist á skuldabréfunum og verðmyndun verði skilvirk og gagnsæ.

Kvika mun þar af leiðandi setja fram dagleg kaup- og sölutilboð. Samkvæmt tilkynningunni verður lágmarksfjárhæð að nafnvirði í markflokka skuldabréfa 80 milljónir króna, en lágmarksfjárhæð tilboða í aðra flokka 20 milljónir.

Skuldabréfaflokkarnir sem flokkast sem markflokkar, eru Arion BCI 21, Arion CBI 29 og Arion CB 22. Fyrir markflokkana gildir að ef útistandandi nafnvirði er minna en 10 milljarðar, skal fjárhæð tilboða vera 60 milljónir. Ef stærð flokksins hefur náð 10 milljörðum króna að nafnvirði, skal fjárhæð tilboða nema 80 milljónum króna.

Hámarksfjárhæð heildarviðskipta sem Kvika er skylt að eiga með skuldabréfaflokka sem falla undir þennan samning hvern dag sem Kvika er skuldbundinn til að setja fram tilboð samkvæmt samningi þessum skal vera samtals 500 milljónir króna að nafnvirði samanlagt í öllum skuldabréfaflokkum.

Arion banki mun veita Kviku aðgang að verðbréfalánum. Hámarkslán til Kviku í hverjum flokki sértryggðra skuldabréfa er 320 milljónir króna að nafnverði fyrir markflokka en 80 milljónir króna að nafnvirði fyrir aðra flokka.

Landsbankinn semur við Arion, Íslandsbanka og Kviku

Landsbankinn samdi einnig um viðskiptavakt í dag og það við Arion, Íslandsbanka og Kviku. Bankarnir munu því sinna viðskiptavakt á eftirmarkaði með sértryggð skuldabréf sem útgefin eru af Landsbankanum. Skuldabréfin eru skráð á Nasdaq Iceland, en skyldur viðskiptavaka taka gildi 4. október 2016.

Viðskiptavakar munu fyrir opnun markaða dag hvern setja fram kaup- og sölutilboð í sértryggð skuldabréf útgefin af Landsbankanum. Lágmarksfjárhæð tilboða í markflokkana skal vera 80 milljónir króna að nafnverði, en hafi markflokkur ekki náð 10 milljarða stærð miðast tilboðsstærð við 60 milljónir að lágmarki.

Markflokkarnir í þessu tilviki eru LBANK CB 19 og LBANK CB 22. Lágmarksfjárhæð tilboða í aðra flokka sem samningurinn tekur til er 20 milljónir króna að nafnverði. Skyldur einstakra viðskiptavaka falla niður á tilteknum viðskiptadegi ef viðskiptavaki hefur átt viðskipti með sértryggð skuldabréf fyrir 500 milljónir króna að nafnverði samanlagt í þeim flokkum sem samningurinn nær til.