Íslenska hugbúnaðarfyrirtækið Meniga hefur samið við Ibercaja, einn af stærstu bönkum Spánar, um að innleiða netbankalausnir Meniga og bjóða viðskiptavinum bankans persónulegri notendaupplifun. Rúmlega ein milljón manns hefur nú aðgang að hugbúnaði Meniga í gegnum bankann.

Fyrsta skrefið í innleiðingunni mun leiða af sér nýja og endurbætta snjallsímalausn. Síðar mun bankinn taka í notkun fleiri vörur Meniga þar sem viðskiptavinir koma til með að geta sett upp sjálfvirkt bókhald, borið sig saman við aðra áþekka einstaklingshópa, sett sér markmið í ákveðnum útgjaldaflokkum og þar með einfaldað og haldið betur um heimilisfjármálin sín.

”Samskipti fyrirtækja við viðskiptavini fer í auknum mæli fram eftir stafrænum boðleiðum sem opnar á ný og spennandi tækifæri. Bankar eru þar engin undantekning. Með því að innleiða hugbúnað Meniga getur Ibercaja nú átt samskipti við viðskiptavini sína á mun persónulegri hátt. Á sama tíma geta þeir boðið viðskiptavinum sínum upp á betri þjónustu, yfirsýn og innsýn í fjármálin sín og þar með gert viðskiptasambandið mun traustara,” er haft eftir Georgi Lúðvíkssyni, forstjóri og einn stofnenda Meniga.

Samtals hefur hugbúnaður Meniga verið innleiddur hjá yfir 70 fjármálastofnunum og er hann aðgengilegur 50 milljón manns í 20 löndum. Meðal viðskiptavina Meniga eru margir stærstu banka heims, þeirra á meðal Santander, Commerzbank, ING Direct og Intesa Sanpaolo.