SidekickHealth er smá­ forrit, eða app, sem hefur það að markmiði að fá notendur til að stunda heilbrigðan lífsstíl með því að gera heilsueflingu skemmtilega. Smáforritið er hugsað fyrir fyrirtæki. Ef fyrirtæki kaupir aðgang að forritinu fær hver starfsmaður það í snjallsímann sinn. SidekickHealth var stofnað árið 2013 af læknunum Tryggva Þorgeirssyni og Sæmundi Oddssyni. Tryggvi segist hafa sett sig í samband við bandaríska fyrirtækið Curves Jenny Craig (CJC) og kynnt forsvarsmönnum þess smáforritið. Viðtökurnar hafi verið mjög góðar. Samningavið­ ræðurnar hafi tekið tiltölulega stuttan tíma eða þrjá mánuði. Hann segist ekki vilja gefa upp neinar fjárhæðir í tengslum við samninginn. „Við bindum mjög miklar vonir við þennan samning og teljum að hann geti mögulega haft mjög mikla þýðingu fyrir okkur enda er þetta ein stærsta heilsuræktarkeðja í heimi með 700 stöðvar víðs vegar um heim,“ segir Tryggvi.

Var í eigu Nestlé

Tryggvi segir að í grunninn byggi samningurinn á því að CJC kaupi aðgang að smáforritinu og geti þannig boðið stórum bandarískum vinnustöðum upp á hóp- og heilsueflingu. Starfsfólki sé skipt í lið sem keppi innbyrðis í þrjár vikur í heilsueflingu og geti starfsmenn unnið sér inn ýmiss konar verðlaun, Í gegnum hugbúnaðinn sé um leið hægt að bjóða starfsfólki upp á skimun fyrir heilsufarsvandamálum, svo sem hættu á áunninni sykursýki og vísa áfram í frekari úrræði.

Curves Jenny Craig var um árabil í eigu bandaríska stórfyrirtækisins Nestlé en árið 2013 keypti fjárfestingarsjóðurinn North Castle Partners (NCP) fyrirtækið. NCP-sjóðurinn fjárfestir í heilsutengdum fyrirtækjum. SidekickHealth hefur í rúmt ár boðið upp á heilsu- og hópefli fyrir vinnustaði, líka þá sem nú er verið að fara af stað með í Bandaríkjunum. Tryggvi segir að þúsundir starfsmanna fyrirtækja í Svíþjóð, Bretlandi og á Íslandi hafi notað SidekickHealth með góðum árangri undanfarið ár.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið á pdf-formi með því að smella á hlekkinn Tölublöð.