*

sunnudagur, 5. desember 2021
Innlent 19. apríl 2021 12:20

Semja við stórfyrirtæki í Bandaríkjunum

Pipar\TBWA og The Engine hafa samið við fyrirtækin Waitr og Bite Squad um markaðssetningu á Bandaríkjamarkaði.

Ritstjórn
Aðsend mynd

Auglýsingastofurnar Pipar\TBWA og The Engine hafa samið við fyrirtækin Waitr og Bite Squad um markaðssetningu á Bandaríkjamarkaði. Þessi tvö fyrirtæki hafa nýlega sameinast en vinna áfram sem tvö vörumerki sem sérhæfa sig í matarsendingum frá veitingarstöðum. 

„Það hefur verið mikill vöxtur í þessum geira sem sér um matarsendingar frá veitingastöðum í heiminum eftir að Covid 19 skall á. Vöxturinn hjá sumum þessara fyrirtækja hefur verið ævintýralegur. Við sjáum t.d. Uber Eats sem hefur vaxið gríðalega. Waitr og Bite Squad eru á sama markaði, vinna meira með nærumhverfi og veitingastaði sem ekki eru keðjur. Appið þeirra er frábært og vöxturinn hefur verið mjög mikill,“ segir Hreggviður Magnússon, starfrænn leiðtogi Pipar\TBWA, í fréttatilkynningu. 

Samstæðan Waitr Holdings Inc. er skráð á Nasdaq í Bandaríkjunum en markaðsvirði hennar er um 297 milljónir dollara eða um 37,5 milljarðar íslenskra króna.  

„Við erum svo heppin að hafa sérþekkingu á þessu sviði innanhúss hjá okkur en Haukur Jarl Kristjánsson, sem leiðir performance deildina okkar, sá á sínum tíma um mikið markaðsfé fyrir fyrirtækið Deliviery Hero þar sem hann leiddi stórt teymi í höfuðstöðvum þeirra í Berlín. En það fyrirtæki auglýsti fyrir milljónir evra á mánuði í gegnum Google með milljónir mismundandi auglýsinga og þúsundir mismunandi markhópa í flestum löndum Evrópu og víðsvegar utan Evrópu, allt á sama tíma. Hann náði að búa til mikla sjálfvirkni í kringum þetta og hlaut Drum Awards verðlaunin hjá Google fyrir bestu tækniþróun í notkun á Google auglýsingum það árið. Það er þessi þekking og reynsla sem þetta stórfyrirtæki í Bandaríkjunum er að sækjast í,” segir Hreggviður Magnússon starfrænn leiðtogi Pipar\TBWA.

Haukur segir verkefnið vera mjög spennandi og sé á heimavelli sínum hvað vöruna varðar. Auglýsingastofan vinni með Waitr í Suður-ríkjum Bandaríkjanna þar sem vöxturinn er mikill og ný markaðssvæði að opnast vikulega.  

„Við erum með um þúsundir mismunandi auglýsinga í gangi í um 700 borgum. Það er erfitt að halda utan um slíkt með handavinnu. Því nýtum við sjálfvirkni eins mikið og við getum, bæði sem eru í boði í hverju kerfi fyrir sig og það sem er þróað innanhús, en svo krefst þetta auðvitað mikillar yfirlegu. Við erum núna búin að keyra auglýsingar fyrir Waitr frá því í lok janúar og ná miklum árangri. Þetta ár verður því mjög spennandi fyrir okkur,” segir Haukur.

Nýr kafli í sögu fyrirtækisins

„Okkur líður eins og nýr kafli sé að hefjast í sögu fyrirtækisins hjá okkur. Við höfum verið að bæta við okkur erlendum viðskiptavinum undanfarið ár en þá eingöngu í Evrópu. En núna kemur þessi stóri viðskiptavinur í Bandaríkjunum sem opnar alveg nýjan markað fyrir okkur. Eins er þessi viðskiptavinur í stærð og þörf fyrir tæknilega sérkunnáttu með því meira sem gerist í heiminum. Með því getum við sýnt hversu framarlega við erum í netmarkaðssetningu. Það opnar enn fleiri dyr sem nú þegar hefur sýnt sig í áhuga annarra fyrirtækja á okkur sem alþjóðlegri auglýsingastofu og getu okkar til að taka að okkur alþjóðleg verkefni,” segir Guðmundur Pálsson, framkvæmdastjóri Pipar\TBWA, um þennan nýjan samning.

Stikkorð: Pipar/TBWA The Engine Bite Squad Waitr