Orka náttúrunnar og Jarðboranir hafa samið um borun sjö holna á Hengilssvæðinu á næstu árum. Gert er ráð fyrir að allt að þrjár holur geti bæst við. Rafmagn frá virkjunum ON verður nýtt til borananna en samkvæmt fréttatilkynningu frá fyrirtækinu sparast við það brennsla á meira en milljón lítrum af olíu miðað við hefðbundnar aðferðir. Það voru þeir Bjarni Már Júlíusson framkvæmdastjóri ON og Sigurður Sigurðsson forstjóri Jarðborana sem skrifuðu undir verksamninginn í Hellisheiðarvirkjun.

2,6 milljarða króna tilboð

Verkið var boðið út á Evrópska efnahagssvæðinu nú í vetur og áttu Jarðboranir lægsta tilboð í holurnar sjö eða 2,6 milljarða króna. Fyrsta borunin sem samningurinn nær til verður í sumar.

Samningur fyrirtækjanna gerir ráð fyrir að allar holurnar verði boraðar með rafmagni frá virkjunum ON en ekki dísilolíu eins og algengast er. Það tekur um mánuð að bora eina holu og aflmiklir borarnir þurfa um 4.500 lítra af olíu á dag. Verði holurnar tíu sparast því um 1,3 milljónir lítra af dísli og með því hátt í 50 þúsund tonna útblástur koltvíoxíðs. Auk þessa er fjárhagslegur sparnaður af því að nýta rafmagn á staðnum í stað innfluttrar olíu.

Holurnar eru jafnt gufuholur til orkunýtingar og niðurrennslisholur. Um þær síðarnefndu er vinnsluvatni frá virkjununum veitt aftur niður í jarðhitageyminn til að stuðla að sjálfbærari nýtingu jarðhitaauðlindarinnar. Við Hellisheiðarvirkjun er koltvíoxíði og brennisteinsvetni úr jarðgufunni blandað saman við vinnsluvatnið, sem fer í niðurrennslisholurnar. Jarðhitagösin steingerast í berggrunninum og bindast þar um alla framtíð. Þessi binding gróðurhúsalofts hefur verið þróuð í verkefnum sem kölluð eru „ Gas í grjót “ og hafa þau vakið athygli um víða veröld.