Íslenska hugbúnaðarfyrirtækið Meniga hefur samið við United Overseas Bank (UOB), þriðja stærsta banka Suðaustur-Asíu, um að innleiða netbankalausnir Meniga í Singapore, Tælandi, Indónesíu, Víetnam og Malasíu.

Meniga og UOB tilkynntu um samstarfið opinberlega á hinni virtu ráðstefnu Singapore Fintech Festival. UOB er fyrsti viðskiptavinur Meniga í Asíu en bankinn er með yfir 500 útibú í 19 löndum.

Með lausnum Meniga geta viðskiptavinir UOB haldið utan um fjármál sín með einföldum hætti í snjallsímaappi og netbanka að því er segir í fréttatilkynningu frá félaginu.

Tímamótasamningur

„Samstarfið við UOB markar tímamót í sögu Meniga þar sem um að ræða fyrsta viðskiptavin okkar í Asíu og einn stærsta samning sinnar tegundar á svæðinu,“ segir Georg Lúðvíksson, forstjóri og einn stofnandi Meniga.

„Við erum sérstaklega hrifin af þeim metnaði sem UOB hefur sett í að gera notendaupplifun sína persónulegri. Það má segja að bankar í Asíu séu virkilega að vakna til lífsins hvað varðar nýjungar í bankastarfsemi.“

Dr Dennis Khoo, framkvæmdastjóri netbankastarfsemi UOB segir: „Samvinna UOB við Meniga er gríðarlega mikilvægur liður í áætlunum bankans að nýta gögn til að bjóða viðskiptavinum betri vörur og þjónustu. Lausnir Meniga hafa nú þegar endurbætt og einfaldað notendaupplifun bankans ásamt því að gera hana mun notendavænni fyrir snjallsíma.“

Um Meniga

Meniga var stofnað árið 2009 og eru starfsmenn í dag um 100. Hugbúnaður Meniga hefur verið innleiddur hjá yfir 70 fjármálastofnunum og er hann aðgengilegur yfir 65 milljón manns í 30 löndum.

Meðal viðskiptavina Meniga eru margir stærstu banka heims, þeirra á meðal Unicredit, Swedbank, BPCE, Santander, Commerzbank, ING Direct og Intesa Sanpaolo. Landsmönnum stendur til boða að nýta sér lausnir Meniga gjaldfrjálst á vefnum meniga.is eða í Meniga appinu fyrir iPhone og Android síma.