Sena, stærsta fyrirtæki landsins á sviði afþreyingar hefur keypt ráðandi hlut í Concert ehf., tónleika- og umboðsfyrirtæki Einars Bárðarsonar, segir í fréttatilkynningu. Kaupverðið var ekki gefið upp.

Concert var stofnað árið 2000 og hefur verið leiðandi í tónleikahaldi og umboðsmennsku á Íslandi undanfarin ár. Síðastliðið sumar réð Sena Ísleif Þórhallsson til starfa með það í hyggju að hefja sókn í tónleikahaldi og eru kaupin á ráðandi hlut í Concert liður í að styrkja enn frekar öflugan vettvang fyrir lifandi tónlist og aðra viðburði.

"Það eru gríðarlega mikil verðmæti í Concert, bæði vörumerkinu og starfsfólkinu. Sena hefur um nokkurt skeið ætlað sér inn á tónleikamarkaðinn og með ráðningu Ísleifs og kaupunum á Concert erum við að leggja grunn að metnaðarfullri uppbyggingu á deild sem mun ráðast í stórverkefni í lifandi tónlist" sagði Björn Sigurðsson framkvæmdastjóri Senu.

Ísleifur Þórhallsson mun stjórna tónleikahaldi Concert en Helga Lilja Gunnarsdóttir verður áfram framkvæmdastjóri félagsins. Einar Bárðarson mun áfram starfa við Concert en hann mun sitja í stjórn félagsins ásamt Birni Sigurðssyni, framkvæmdastjóra Senu, og Pálma Guðmundssyni.

"Síðan í byrjun þessa árs hef ég verið að leita að ákjósanlegum samstarfsaðila í rekstri Concert. Mikið af mínum tíma fer nú í rekstur útgáfufélagsins Believer í London. Sena er sterkasta félagið á sviði afþreyingar á Íslandi og ég tel mig geta lært mikið af því reynslumikla fólki sem þar er. Ég horfi með bjartsýni á það sem er framundan hjá Concert. Ég er stoltur af þeim árangri sem félagið hefur náð á síðustu 6 árum og ég er sannfærður um að þetta eigi eftir að efla félagið gríðarlega" sagði Einar Bárðarson við söluna.

Samhliða setu í stjórn Concert mun Einar sinna ráðgjafastarfi í útflutningi á íslenskri tónlist, fyrir stjórn og framkvæmdastjóra Senu.

Kaupin eru háð fyrirvara um að samkeppnisyfirvöld samþykki ráðhaginn.