Búið er að skrifa undir samning um kaup Senu á miðasölufyrirtækinu Miði.is og liggur málið nú á borði Samkeppniseftirlitsins.

Í Fréttatímanum í dag kemur fram að Samkeppniseftirlitið hafi sett sig í samband við tónleikahaldara og fleiri sem selja miða hjá Miða.is og óskað eftir athugasemdum. Þá segir í blaðinu að kurr sé á meðal þeirra enda hafi Sena staðið fyrir tónleikahaldi og megi færa rök fyrir því að fyrirtækið verði beggja vegna borðsins gangi kaupin eftir.

Björn Sigurðsson, framkvæmdastjóri Senu, segir í samtali við Fréttatímann forsvarsmenn fyrirtækisins þurfa að sannfæra bransann um að aðskilnaður verði á Senu og Miða.is svo mönnum líði vel í viðskiptum fyrir Miða.is. Hann vill ekki gefa upp kaupverðið.