Sena hefur samið við nettónlistarveituna Spotify um dreifingu á íslenskri tónlist. Íslendingum opnaðist aðgangur að tónlistarveitunni í vikunni og standa vonir til að innan sex vikna verði stærstur hluti þeirrar tónlistar sem komið hefur út á vegum Senu á stafrænu sniði aðgengileg áskrifendum Spotify á Íslandi og um allan heim, að því er segir í tilkynningu frá Senu.

Á sama tíma og dyr tónlistarveitunnar opnuðust Íslendingum í vikunni þá gerði hún það líka í Mexíkó, Eystrasaltslöndunum, Singapore, Hong Kong og Malasíu. Hún er því aðgengileg í 28 löndum. Í tilkynningu Senu segir að Spotify sé þegar í lykilstöðu á stafrænum tónlistarmarkaði víða um heim.

Spotify býður notendum sínum að spila ótakmarkað magn tónlistar gegn vægu áskriftargjaldi og þjónustan hefur slegið í gegn alls staðar sem hún er starfrækt. Í Svíþjóð eru til að mynda meira en 10% íbúa landsins greiðandi áskrifendur að Spotify.