Hjálparstarf kirkjunnar hefur sent 16,6 milljónir króna til neyðaraðstoðar við stríðshrjáða í Sýrlandi. Framlaginu verður varið til aðstoðar við heimilislaust fólk þar í landi og flóttafólk í nágrannalöndum Sýrlands.

„Markmið verkefnisins er að sinna grunnþörfum íbúanna með því að veita þeim matarðstoð og aðstoð við að halda heimili, tryggja þeim aðgang að heilsugæslu, halda úti skólastarfi fyrir börn og síðast en ekki síst með því að veita börnum og unglingum sálrænan stuðning. Ungu flóttafólki frá Sýrlandi sem dvelur í búðum og ungu fólki frá móttökuþjóðum er þannig hjálpað til að takast á við aðstæður á jákvæðan hátt en þannig er leitast við að draga úr neikvæðum áhrifum stríðsástandsins á umhverfið,“ segir í tilkynningu frá Hjálparstofnun kirkjunnar.

Talið er að 33% sýrlensku þjóðarinnar eða 6,8 milljónir þurfi neyðaraðstoð. Verðbólga og hátt verðlag gerir fátækum mjög erfitt fyrir að afla nauðþurfta og heilsugæsla er í lamasessi. 4,2 milljónir Sýrlendinga eru á vergangi, búa mjög þétt með öðrum t.d. í skólum eða moskum, eða sér, í skemmdum eða ónýtum húsum og hafa orðið að skilja allar eigur eftir við flóttann. 1,8 milljónir landsmanna eru skráðir flóttamenn í nágrannlöndum. Talið er að um 200.000 manns séu óskráðir og teljast þeir til þeirra verst settu. Skólaganga er lítil og stopul hjá öllum börnum á átaksvæðum og þar sem flóttafólk er margt.

Utanríkisráðuneytið veitti 15 milljóna króna styrk og Hjálparstarfið ráðstafaði 1,6 milljónum króna af söfnunarfé til verkefnisins sem nær til 198.715 manns.