Líkamsræktarstöð undir merkjum Budz Boot Camp var opnað í Kristianssand í Noregi í síðasta mánuði. Þetta er þriðja útibú Boot Camp sem er opnað utan landsteina á síðastliðnum fjórum árum. Boot Camp hóf starfsemi í Reykjavík fyrir tíu árum og fagnaði líkamsræktarstöðin áfanganum um síðustu helgi.

Fyrir um þremur árum var fyrsta stöðin erlendis opnuð í Kaupmannahöfn og önnur í Vejle fyrir um ári. Mismunandi einstaklingar reka hverja stöð. Útibúið í Noregi reka Íslendingar með heimamönnum. Boot Camp á Íslandi hefur einkaleyfi á nafninu og greiða rekstraraðilarnir ytra árlegt sérleyfi fyrir notkun á vörumerkinu auk ákveðinnar prósentu til viðbótar eftir gengi staðanna hverju sinni.

Arnaldur Birgir Konráðsson, einn stofnenda og eigenda Boot Camp á Íslandi, segir engin eignatengsl á milli stöðvarinnar hér og þeirra úti og fylgja rekstrinum ytra engar fjárhagslegar skuldbindingar fyrir þá sem reka stöðina hér. Samgangurinn er hins vegar töluverður enda miðli þjálfarar þekkingu sinni áfram.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast pdf-útgáfu af blaðinu með því að smella á hlekkinn Tölublöð .