Eftirlitsaðilar í Brussel hafa verið að kafa ofan í skattasamninga Apple við yfirvöld á Írlandi. Samkvæmt BBC íhugar framkvæmdarstjórn Evrópusambandsins nú að senda tæknirisanum stóran reikning.

Bandarísk yfirvöld eru lítið hrifin af hugmyndum Evrópumanna og telja sambandið vera á miklum villigötum ef það hyggst vaða yfir skattalög annara ríkja.

Evrópusambandið, hefur samkvæmt bandarískum eftirlitsaðilum beitt öðrum úrræðum við rannsókn á meintum skattabrotum Apple. Fyrirtækið er ekki fyrsta félagið sem Evrópusambandið beinir augum sínum að.

Aukin forræðishyggja hefur valdið pólitíkusum vestanhafs og ýmsum stjórnendum fyrirtækja talsverðum áhyggjum. Bandaríkjamenn telja Evrópusambandið vera sérstaklega ósanngjarnt í aðgerðum gegn bandarískum fyrirtækjum.

Fjármálaráðuneyti Bandaríkjanna hefur nú þegar sent hvítbók til Brussel, sem hvetur Evrópumenn til þess að endurskoða og íhuga aðgerðir sínar og afleiðingar þeirra vandlega áður en lengra er haldið.