Eistar minnast þess með hlýhug að Íslendingar voru fyrstir þjóða til að viðurkenna endurheimt sjálfstæði Eistlands árið 1991. Af því tilefni ákváðu stjórnvöld Eistlands að sýna Íslendingum sérstakt þakklæti með því að senda hingað til lands úrvals kammerkór og efna til tónleika í Salnum í Kópavogi og í Skálholti um næstu helgi.

Í tilkynningu vegna tónleikanna segir að Eistar vilji jafnframt minnast þess að nú eru liðin rétt 90 ár frá stofnun eistneska lýðveldisins, 24. febrúar 1918. Þetta var hátíðisdagur í Eistlandi þar til Sovétmenn hernámu landið árið 1940. Á hernámstímanum blakti fáni Sovétríkjanna við hún á hinum forna Toompea turni í miðborg Tallinn. Þann 24. febrúar 1989 var hann dreginn niður og í hans stað fáni Eistlands dreginn að húni.  Þannig endurheimti dagurinn virðingu sína og nú er fullveldisdagurinn almennur frídagur í Eistlandi.

Á laugardaginn kemur, 16. febrúar, verða sérstakir hátíðartónleikar í Salnum í Kópavogi fyrir boðsgesti. Tónleikar opnir almenningi verða svo í Salnum kl. 20:00 að kvöldi sunnudags 17. febrúar. Einnig verða styttri tónleikar í Skálholtskirkju sunnudaginn 17. febrúar kl. 15:00. Aðgangur í Skálholti er ókeypis.

Á tónleikunum kemur fram blandaður kammerkór atvinnumanna, Eesti Filharmoonia Kammerkoor. Hann er margverðlaunaður og talinn vera meðal bestu kammerkóra í heiminum. Flutningur hans hefur verið gefinn út á fjölda hljómplatna/geisladiska og kórinn hefur átta sinnum verið tilnefndur til Grammy verðlauna.

Á efnisskrá kórsins í Íslandsferðinni eru verk eftir sum fremstu tónskáld Eistlands frá ýmsum tímum, þar á meðal Cyrillus Kreek (1889-1962) og Mart Saar  (1882-1963). Tónlist þeirra hefur verið talin þýðingarmikið framlag til sjálfstæðis-baráttu Eista.

Þá verður frumflutt verk, tileinkað Íslandi, eftir Tõnu Kõrvits (f. 1969), sem af mörgum er talinn eitt efnilegasta unga tónskáld Eista.

Einnig eru á dagskrá kórsins verk eftir Arvo Pärt (f. 1935) sem hlaut alþjóða-viðurkenningu eftir að hann flúði til Vesturlanda og tónlist hans varð þjóðum heims aðgengileg. Arvo Pärt hlaut helstu tónlistarverðlaun Dana, Sonning verðlaunin, fyrr á þessu ári. Í umsögn dómnefndar segir að tónlist hans sé einföld og fögur. Árið 2006 hlaut Arvo Pärt Grammy verðlaun og yfir 80 geisladiskar hafa komið út með tónlist hans.

Stjórnandi kórsins er Hollendingurinn Daniel Reuss (f. 1961). Hann var áður aðalstjórnandi Cappella Amsterdam sem varð einn eftirsóttasti kór í Hollandi undir stjórn hans.

Nánair upplýsingar um kórinn og tónleikana er að finna á: http://salurinn.is og á http://www.epcc.ee/