*

miðvikudagur, 27. október 2021
Innlent 18. desember 2015 15:17

Senda Landsvirkjun tóninn

Samtök iðnaðarins draga í efa að orkuverð Landsvirkjunar sé samkeppnishæft þvert á orð forstjóra Landsvirkjunar.

Trausti Hafliðason
Almar Guðmundsson, framkvæmdastjóri Samtaka iðnaðarins.
Haraldur Guðjónsson

Orkuverð erlendis hefur lækkað um allt að 50% á síðustu þremur til fjórum árum á meðan Landsvirkjun býður enn sama verð. Þetta kemur fram í grein á vefsíðu Samtaka iðnaðarins (SI). Þar segir að á árunum 2011-2012 þegar Landsvirkjun hafi markaði núverandi verðstefnu hafi algeng verð á erlendum mörkuðum verið um 50-60 dollarar á megavattstund. Landsvirkjun hafi staðsett sig vel undir þeim mörkum til að vera samkeppnishæf. Í dag sé staðan hins vegar sú að verð Landsvirkjunar virðist óbreytt á meðan verð erlendis séu  allt að 50% lægri en þá.

Haft er eftir Almari Guðmundssyni, framkvæmdastjóra SI, að það sé „mikilvægt hagsmunamál að stóriðjufyrirtækin á Íslandi geti áfram dafnað á Íslandi. Heilt yfir standa fyrirtækin í stóriðju frammi fyrir afar erfiðu starfsumhverfi. Afurðarverð á málmmörkuðum eru lág, kjaradeilur í gangi og endurnýjanir mikilvægra raforkusamninga standa yfir."

Almar segir að Samtök iðnaðarins hafi bent á að það verði að horfa til alþjóðlegra raforkumarkaða og samkeppnishæfni okkar í verðum út frá stöðunni í dag.

„Raforkuverð í Evrópu og víðast hvar í heiminum eru mjög lág um þessar mundir og fátt sem bendir til að þau hækki í bráð. Þau sjónarmið sem réðu ríkjum þegar verðstefna Landsvirkjunar var mótuð fyrir 3-4 árum virðast ekki eiga við núna. Við erum ennfremur að glíma við einn hæsta flutningskostnað á raforku í heiminum og að óbreyttu mun hann hækka verulega.“

Á blaðamannafundi sem Landsvirkjun hélt í gær sagði Hörður Arnarson, forstjóri fyrirtækisins, að gríðarleg eftirspurn væri eftir raforku hérlendis og því hlyti það verð sem Landsvirkjun væri að bjóða að vera samkeppnishæft.

„Eftirspurnin er mun meiri en framboðið og meiri en Landsvirkjun getur þjónustað," sagði Hörður á fundinum. „Það staðfestir að Landsvirkjun er að bjóða hagkvæma samninga og afar ólíklegt er að hagstæðari langtímasamningar séu í boði annars staðar."