Þetta er búið að vera hluti af Fanfestinu í ansi mörg ár, nánast frá upphafi,“ segir Sveinn Jóhannesson Kjarval, samfélagsþróunarstjóri hjá CCP, um svokallað Sisters of Eve eða makadagskrá sem lýsir sér í því að CCP býður upp á sérstaka ferð og dagskrá fyrir maka þeirra sem sækja Eve Fanfest á hverju ári. „Þetta er mjög vinsælt, það er dálítið um það að fólk er að koma og pör gera sér ferð úr því að koma til Íslands fyrst Fanfestið er hérna.“

Að sögn Sveins hafa verið um 50-100 manns sem hafa skráð sig í makadagskrána ár hvert. „Að uppistöðu eru þetta eiginkonur og kærustur Eve spilara,“ segir Sveinn. Það þarf þó ekki að undra þegar litið er til þess að yfir 90% af spilurum leiksins eru karlmenn. „Það er samt áhugavert með þessa viðburði sem við höldum. Bæði þennan, annan stóran í Las Vegas sem við höldum á hverju ári og svo enn aðra minni, að þá virðist vera sem að kynjahlutföllin séu alltaf töluvert betri á viðburðunum sjálfum heldur en hlutfall spilara í leiknum segir til um. Þannig að það virðist vera að kvenspilararnir séu ansi virkir í félagslífinu í kringum leikinn,“ segir Sveinn.

„Á meðan sjálf ráðstefnan fer fram þá er náttúrulega ekkert víst að báðir séu jafn áhugasamir um EVE. Þess vegna höfum við verið að bjóða upp á þessa dagskrá, þar sem þeir sem hafa kannski minni áhuga geta farið með hinum EVE-mökunum,“ segir Sveinn en sú nýlunda verður í ár að boðið verður upp á tvenns konar ferðir. „Það hefur oft verið töluverður hasar í þessu. Dagskráin hefur verið þannig að fólk er að fara á hestbak, snjósleða og „buggy“ bíla. Núna erum við líka að bjóða upp á það að fólk geti tekið því rólegar,“ segir Sveinn.

Í ár kallast því hefðbundna dagskráin hasardagskrá þar sem fyrsti dagskrárliðurinn er „buggy“ bílaferð en því næst tekur við axarkast og að lokum reynir hópurinn við sig í skotfimi á æfingasvæði. Nýja dagskráin býður hins vegar upp á heimsókn á geitabýli, ferð í jarðböð og bjórsmökkun. Með ferðunum fylgir svo að sjálfsögðu miði í Teitið á toppi veraldar sem nánar er fjallað um hér til hliðar.

Nánar má lesa um málið í Viðskiptablaðinu sem kemur út á morgun. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð , aðrir geta skráð sig í áskrift hér . Meðal annars efnis í blaðinu er:

  • Ný könnun um stöðu flokkanna í borginni
  • Alvogen kannast ekki við að starfsemi félagsins í Evrópu sé í söluferli
  • Brotthvarf Gísla Haukssonar frá Gamma markar áherslubreytingu
  • Seðlabankastjóri gefur lítið fyrir gagnrýni á innflæðishöft
  • Stjórnarlaun skráðra fyrirtækja í Kauphöllinni eru á uppleið
  • Framtakssjóðir eru heppilegt tól til að knýja fram nýsköpun, umbreytingar, vöxt og endurreisn að mati dósents í hagfræði.
  • Viðtal við fyrrverandi forstöðumann Tesla um raforkunotkun á Íslandi
  • Ítarlegt viðtal við Skarphéðinn Berg STeinarsson, nýjan Ferðamálastjóra
  • Myndasíða af Iðnþingi 2018
  • Fyrirtækið Arctic Sea Minerals framleiðir heilsusalt á Suðurnesjum
  • Viðtal við Guðmund Arason, nýjan forstjóra Truenorth.
  • Óðinn er á sínum stað og fjallar um valdataflið í Brussel
  • Huginn og Muninn eru á sínum stað auk Týs sem fjallar um forsætisráðherra og skatta