Í fyrsta skiptið hefur Arctic Trucks, sem sérhæfir sig í jeppabreytingum, selt bíla til Grænlands í vísindalegum tilgangi. Um er að ræða tvo Landcruiser 70 og einn 6X6 Hilux, allir AT 44 breyttir. Flotinn byggir á bílum sem Arctic Trucks hefur áður sent á Suðurskautslandið en eru þó aðlagaðir að starfseminni á Grænlandi.

Upphaflega átti að byrja að nota bílana í maí en sökum veirufaraldursins var því seinkað til ágúst. Ásamt því að umbreyta bílunum gerir Emil Grímsson, sitjandi framkvæmdastjóri Arctic Trucks International, ráð fyrir því að félagið muni sjá um þjálfun á þeim aðilum sem nota munu bílana í framíðinni. Fyrsti hópurinn er líklegur til þess að fara í haust eða vetur.

„Venjulega þegar vísindastofnanir versla við okkur kaupa þau líka þjálfun, sem myndi þá fara fram á Íslandi. Fyrsti hópurinn átti að koma til okkar í þjálfun í vor en sökum COVID hefur það frestast og geri ég ráð fyrir því að hún muni hefjast næsta vetur,“ segir Emil. Bætir hann við að Arctic Trucks hafi áður selt stofnunum, auk fyrirtækja, frá fjölda ríkja bíla sína, meðal annars frá Kína, Þýskalandi, Indlandi, Suður-Kóreu og Finnlandi en einungis fyrir ferðir til Suðurskautslandsins.

„Félagið hefur fyrst og fremst skapað sér sess á Suðurskautslandinu en bílar félagsins hafa meðal annars farið 77 sinnum á Suðurpólinn sjálfan. Við höfum selt 32 bíla á Suðurskautið, um fjóra til Grænlands, auk þeirra þriggja sem nú bættust við, en engan á Norðurskautið enda ekki grundvöllur fyrir bílaumferð þar,“ er haft eftir Emil. „Það tekur langan tíma fyrir svona stofnanir að treysta sér“

Spurður af hverju vísindastofnunin leiti til þeirra mætti helst nefna gott orðspor félagsins. „Það tekur langan tíma fyrir svona stofnanir að taka eftir sér og treysta. Við höfum tvisvar farið yfir allt Grænland, einu sinni árið 1999 og síðan aftur árið 2018. Síðari ferðin var ákveðin „proof of concept“ fyrir vísindastofnanir þar sem þær fengu að sjá hvað við getum gert. Til þess að geta fengið álíka samning og þann sem við vorum að landa þarf að hafa mikla reynslu og gott orðspor,“ segir Emil en bílafloti félagsins hefur keyrt yfir 340 þúsund kílómetra á hástéttinni á Suðurskautslandinu. Bætir hann við að ef reynslan af þessum bílum reynist góð er líklegt að bæði þessi stofnun og aðrar taki fleiri bíla og því mikið í húfi.

Blása til sóknar með Ford-150

Á meðal verkefna sem félagið sinnir í miðjum heimsfaraldri er hönnun á bíl fyrir björgunarsveitirnar en Ford-150 varð fyrir valinu. Vonir eru um að geta nýtt bílinn í verkefni á Suðurskautslandinu og Norður-Ameríku. „Meðal verkefna sem er í gangi núna er að hanna bíl sem við teljum henta björgunarsveitum á Íslandi vel, starfsemi vísindastofnana og fleiri á Suðurskautinu. Með Ameríkubíl sem grunn ætti bíllinn einnig að opna fyrir þeim stóra markaði sem Norður-Ameríku er,“ segir Emil en ef það heppnast getur stærðarhagkvæmni félagsins aukist verulega.

Hann sér mikil tækifæri í Norður-Ameríku og segir Ford-150 henta vel þar. Hins vegar sé það grunnforsenda að vel gangi í þessu verkefni svo hægt sé að fara vestanhafs af miklum krafti.

Nánar má lesa um málið í Viðskiptablaðinu sem kemur út á morgun. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð , aðrir geta skráð sig í áskrift hér . Meðal annars efnis í blaðinu er:

  • Hornafjörður þarf að bæta ferðaþjónusturekanda tjón sem hlaust af ólögmætum afgreiðslum sveitarstjórnar.
  • Rætt er við veitingamennina Hrefnu Rósu Sætran og Jakob Einar Jakobsson um stöðuna í geiranum.
  • Í kjölfar tekjufalls vegna COVID-19 þurfti Base Parking að finna nýjan tekjustraum.
  • Greint frá ársreikningi Kerecis fyrir síðasta rekstrarár en félagið tapaði um 830 milljónum króna.
  • Rætt er við Steinar Þór Ólafsson sem var nýlega ráðinn sem sérfræðingur í samskiptum og miðlun hjá Viðskiptaráði.
  • Fjallað verður um tíu sprotafyrirtækin sem voru valin til þátttöku í viðskiptahraðlinum Startup Supernova.
  • Ákvörðun Apple um að hanna eigin tölvuörgjörva og hvaða breytingar það hefur í för með sér.