Seðlabankinn sendi fjármálafyrirtækjum í dag drög að reglum sem m.a. varða fjárfestingarheimildir erlendra fjármálafyrirtækja og gagnaskil til Seðlabankans. Drögin að reglunum eru grundvölluð á breytingum á gjaldeyrishöftum sem samþykkt voru á Alþingi í gær.

Fram kemur í tilkynningu frá Seðlabankanum að reglurnar muni ekki fela í sér breytingar á fjárfestingarheimildum frá því sem nú er.

Á meðal þess sem fram kemur í lögunum er að einstaklingar sem eru innlendir aðilar hafi heimild til að kaupa og flytja inn eitt farartæki erlendis frá á almanaksári fyrir allt að 10 milljónir króna að jafnvirði sé það ætlað til einkanota innanlands. Gjaldeyrisviðskipti og fjármagnshreyfingar á grundvelli þess eru háðar því skilyrði að tilkynning um kaupin á farartækinu hafi hlotið staðfestingu Seðlabanka Íslands.