Sverrir Haukur Gunnlaugsson, sendiherra Íslands í Bretlandi, kveðst hafa áhyggjur af því að allt umtalið um frystingu eigna Landsbankans þar í landi hafi áhrif á þá bresku aðila sem eiga í viðskiptum við íslensk fyrirtæki, sér í lagi þau fyrirtæki sem eru eyrnamerkt Íslandi, eins og fyrirtæki með íslenskar sjávarafurðir.

Umtalið hafi til að mynda áhrif á tryggingar, ábyrðir og peningagreiðslur. Ýmis fyrirtæki hafi orðið að semja upp á nýtt um þessa þætti. Umtalið um Ísland í Bretlandi hafi líka leitt til þess að þeir aðilar sem kaupa varning í Bretlandi hafi jafnvel orðið að staðgreiða hann.

Bresk stjórnvöld frystu eignir Landsbankans þar í landi á grundvelli hryðjuverkalaga, eins og kunnugt er, hinn 8. október vegna Icesave-reikninga bankans. Þær aðgerðir hafa meðal annars orðið til þess að fjármagnsflutningar milli landanna hafa næstum því lokast.

Gríðarlegir hagsmunir í húfi

Sverrir Haukur segir í samtali við Viðskiptablaðið í dag að um gríðarlega viðskiptahagsmuni sé að ræða. „Íslendingar eru langstærtu innflytjendur sjávarafurða til Bretlands," segir hann og bætir við. „Og við kaupum mest af okkar nauðsynjavörum í Bretlandi. Þegar heildarviðskiptaveltan er skoðuð skiptir Bretland okkur hvað mestu máli. Þess vegna er þetta ástand svo grafalvarlegt fyrir okkur. Það tekur sjálfsagt langan tíma að greiða úr þessu."

Hann segir að Íslendingar þurfi að koma fram af kurteislegri hörku til að verja sína hagsmuni.

Ítarlegra viðtal er við Sverri Hauk Gunnlaugsson, sendiherra Íslands í Bretlandi, í Viðskiptablaðinu í dag.