Anton Vasiliev, sendiherra Rússlands á Íslandi, er á því að viðskiptaþvinganir séu röng leið til að beita í milliríkjadeilum. Hann segir aðgerðirnar gegn Rússlandi vera tilefnislausar og fáránlegar. Þær hafi einungis neikvæð áhrif á alla viðkomandi, þar að auki séu þær ólöglegar og byggðar á röngum forsendum.

„Atburðirnir í Úkraínu eru grundvöllur refsinganna en vestrænir fjölmiðlar afvegaleiða umræðuna. Öndvert við það sem þeir halda fram, þá innlimaði Rússland ekki Krímskagann. Það var vilji fólksins sem þar býr að verða hluti af Rússlandi, íbúarnir óskuðu þess fyrst eftir upplausn Sovétríkjanna og aftur í þjóðaratkvæðagreiðslu í mars 2014, sem haldin var í kjölfar valdaráns hersins í Kænugarði þar sem löglegur forseti landsins var hrakinn í burtu með aðstoð Vesturlanda,“ segir hann.

Vasiliev segir að óháðar skoðanakannanir sýni að íbúar Krímskagans vilji vera hluti af Rússlandi. „Besta leiðin til að átta sig á ástandinu þar er að fara þangað sjálfur og sjá hvað er að gerast með eigin augum. Það er eitthvað sem ég hvet alla til að gera.“

Anton Vasiliev, sendiherra Rússlands á Íslandi, er í ítarlegu viðtali í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast pdf-útgáfu af blaðinu með því að smella á hlekkinn Tölublöð .