Sendinefnd, skipuð 9 sérfræðingum úr ráðuneytum og háskóla Brunei, kom nýverið hingað til lands til að kynna sér íslenskt samfélag og þá sérstaklega vísinda- og tæknistefnu Íslendinga síðustu 3 áratugina. Heimsóknin var liður í undirbúningi Brunei til að takast á við framtíðina sem væntanlega mun einkennast af minnkandi olíu- og gasframleiðslu.

Mikil vinna hefur hafist í landinu til að reisa stoðir undir efnahagskerfi sem ekki aðeins byggir á náttúruauðlindum eins og olíu og gasi, heldur einnig gjöfulum fiskimiðum, iðnaði og frjósömu landi. Nýja efnahagskerfið á ekki síst að reiða sig á mannauðinn í landinu, þá sérstaklega vinnu vísindamanna.

Rannís tók að sér að skipuleggja heimsóknina. Sendinefndin hitti fulltrúa Samtaka iðnaðarins, Seðlabankans, menntamálaráðuneytisins, utanríkisráðuneytisins, Hafrannsóknastofnunar Íslands, Rannsóknastofnunar fiskiðnaðarins, Landbúnaðarháskóla Íslands, Háskóla íslands, Háskóla Reykjavíkur, Kennaraháskóla Íslands, Iðntæknistofnunar, Marel hf og Íslenskrar erfðagreiningar.

Brunei Darussalam er staðsett á norðvesturhorni eyjunnar Borneo, í Suður-Kínahafi. Flatarmál landsins er tæplega 6000 km2. Í Brunei búa 365 þúsund manns. Að meðaltali er hitinn í landinu lægstur 24 gr. á Celcíus en hæstur 32 gráður.

Byggt á fréttabréfi Rannís.