„Nefndarmenn eru enn að störfum í Moskvu,“ segir Stefán Jóhann Stefánsson, starfsmaður á skrifstofu bankastjórnar Seðlabanka Íslands. Hann segir að nefndin sé að ræða við fulltrúa rússneskra stjórnvalda.

Íslenska sendinefndin fór í upphafi vikunnar til Rússlands til að ræða við fulltrúa stjórnvalda í Rússlandi um mögulega lánafyrirgreiðslu, eins og það var orðað í fréttatilkynningu frá Seðlabankanum.

Í sameiginlegri tilkynningu frá Seðlabankanum og fjármálaráðuneyti Rússlands, sem send var fjölmiðlum í gær, segir m.a. að á fundi aðila í Moskvu hefði verið skipst á upplýsingum, farið yfir núverandi stöðu á fjármálamörkuðum og staða Íslands sérstaklega rædd.

Nefndin væri á heimleið

Haft var eftir Sturlu Pálssyni, sem fer fyrir íslensku nefndinni í Viðskiptablaðinu í dag, að nefndin væri á heimleið. Hún væri hins vegar reiðubúin að halda austur á nýjan leik með skömmum fyrirvara.

Nú hafa hins vegar orðið breytingar á þeim fyrirætlunum. Sendinefndin er enn í Moskvu þar sem hún ræðir við fulltrúa rússneskra stjórnvalda.

Þegar Stefán Jóhann er spurður hvort enn sé ekki útséð með lánafyrirgreiðslu frá Rússlandi svarar hann: „Ég get ekki svarað neinu öðru en því að nefndin er enn að störfum.“