Frá og með 3. júní næstkomandi mun Íslandspóstur leggja 400 króna gjald á sendingar hingað til lands sem koma frá Evrópu. Gjaldið verður helmingi hærra fyrir sendingar sem berast frá löndum utan Evrópu. Þetta kemur fram í tilkynningu frá Póstinum.

Fyrir tveimur dögum tóku gildi breyting á lögum um póstþjónustu sem heimila Íslandspósti slíka álagningu. Lagabreytingin var byggð á upplýsingum frá Póstinum um að heilmiklir fjármunir töpuðust ár hvert vegna svokallaðra „Kínasendinga“.

Í tilkynningunni segir að fyrirtækið hafi tapað 920 milljónum af sendingunum á síðasta ári. Samkvæmt ársreikningi félagsins nam af tap af alþjónustu, þar sem Kínasendingarnar falla, 1.164 milljónum. Má því gera ráð fyrir að tæplega 250 milljónir hafi tapast á samkeppnisrekstri Póstsins innan alþjónustu innlands. Póstþjónustulögum samkvæmt ber gjaldskrá að miða við raunkostnað við að veita þjónustuna að viðbættum hæfilegum hagnaði.

„Við gerum okkur grein fyrir því að þessi ráðstöfun á eftir að valda einhverri óánægju og skiljum það vel. Ljóst er að innheimta sérstaks sendingargjalds er óheppileg leið til þess að mæta því að ekki hefur enn tekist að ná fram þeirri breytingu á alþjóðasamningum að burðargjald erlendra sendinga standi undir dreifingarkostnaði,“ er haft eftir Helgu Sigríði Böðvarsdóttur, framkvæmda fjármálasviðs Íslandspósts, í tilkynningunni.

Sama gjald leggst því á sendingar frá Kína og frá Bandaríkjunum þrátt fyrir að Bandaríkin teljist ekki til þróunarríkja samkvæmt alþjóðlegum endastöðvasamningum UPU.