Walt Disney mun frá og með þessari viku hætta tímabundið að greiða yfir 100 þúsund starfsmönnum sínum laun. Kórónuveiran hefur haft mikil áhrif á fyrirtækið og hefur það neyðst til að loka skemmtigörðum sínum víða um heim sökum veirunnar. BBC greinir frá.

Með þessu losnar fyrirtækið við að greiða um helmingi starfsmanna sinna laun og sparast við það 500 milljónir dollarar á mánuði. Fyrirtækið hefur hvatt starfsmenn sína sem starfa í Bandaríkjunum og neyðast til að fara í launalaust leyfi, að sækja um bætur frá ríkinu.

Disney, sem er stærsta afþreyingarfyrirtæki heims, starfrækir skemmtigarði og hótel í Bandaríkjunum, Evrópu og Asíu. Á síðustu þremur mánuðum ársins 2019 námu tekjur félagsins af skemmtigörðum, afþreyingarefni og vörum um 1,4 milljörðum dollara.