Elon Musk, eigandi bílaframleiðandans Tesla og eldflaugafyrirtækisins SpaceX er full alvara þegar hann segist ætla að senda rauðan Tesla bíl á sporbaug um Mars í janúar næstkomandi. Hann hefur jafnframt valið hvaða lag bíllinn á að vera að spila meðan á eldflaugaskotinu stendur, það er lagið Space Oddity með David Bowie að því er Bloomberg fréttastofan greinir frá.

Tilkynnti Elon Musk um áætlun sína með tísti á samfélagsmiðlinum Twitter um helgina, og kallar hann verkefnið, sem teljast verður áhugavert markaðsbragð, Rauður bíll fyrir rauða plánetu.

Verður bílnum skotið upp með nýrri eldflaug SpaceX sem heitir Falcon Heavy, en henni verður skotið upp frá sama eldflaugapalli í Flórída og notuð var til að senda Appolo geimfarana til tunglsins.

Í dag notar fyrirtækið Falcon 9 flaugar sínar, sem hafa 9 Merlin vélar, til að þjónusta gervihnattafyrirtæki, bandaríska herinn sem og NASA, en Falcon Heavy, sem verið hefur í þróunarvinnu í mörg ár, verður mun öflugri með 27 Merlin válar. Ætlunin er að prófa eldflaugina strax á þessu ári, en fyrirtækið hefur þegar samið við bandaríska herinn og gervihnattafyrirtæki um notkun hennar.

Ekki bara auglýsingabragð

Ástæðan fyrir því að senda Tesla bíl með fyrstu flauginni er ekki bara auglýsingabragð heldur til að tryggja að ekki tapist búnaður á vegum viðskiptavina fyrirtækisins ef eitthvað fer úrskeiðis segir Phil Larson fyrrum starfsmaður SpaceX og ráðgjafi Obama Bandaríkjaforseta sem nú starfar við háskólann í Colorado.

„Á sama hátt og fyrsta flug nýrrar Jumbó flugvélar er ekki full af farþegum, þá borgar það sig að nýta fyrsta skotið til að læra af því og að farmurinn skipti ekki öllu máli,“ segir Larson.

Framleiðsla Tesla undir væntingum

Gengið hefur vel hjá félaginu á árinu, en það hefur þegar flogið 16 eldflaugum á árinu, sem er tvöfalt meira en var á síðasta ári, meðan gengi Tesla hefur verið ójafnara. Félagið sýndi nýjan Model 3, ódýrari rafknúinn fólksbíl, í júlí síðastliðnum, en enn hefur ekki tekist að framleiða bílinn í því magni sem að var stefnt.

Framleiddi félagið einungis 260 bíla á þriðja ársfjórðungi, en hafði stefnt að því að þeir yrðu 1.500, en í síðasta mánuði stefndi félagið að því að framleiða 5.000 bíla í hverri viku í Mars næstkomandi, sem er ársfjórðungi seinna en upphaflega hafði verið áætlað.