Norska fjármálaeftirlitið hefur sent langan spurningalista til forsvarsmanna Kaupþings og Exista vegna stöðutöku þeirra í norska tryggingafélaginu Storebrand. Í frétt netmiðilsins 24.no kemur fram að svörin geta ráðið úrslitum um það hvort Íslendingar fái að halda hlut sínum.

Kaupþing hefur heimild til að fara með allt að 20% hlutafjár í Storebrand. Þá hefur Exista, sem er stærsti hluthafi Kaupþings með 23% hlut, greint frá því að félagið hafi eignast 5,56% í Storebrand. Augljóst er af norskum fjölmiðlum að þeir telja að þetta séu mjög skyldir aðilar. Til að komast yfir 10% hlut þarf að sækja um heimild til fjármálaeftirlitsins.