Mikill uppgangur hefur verið hjá hugbúnaðarfyrirtækinu Sendiráðinu það sem af er ári og óx starfsmannafjöldi fyrirtækisins um þriðjung með ráðningu sex nýrra starfsmanna. Óvissuástandið sem skapaðist vegna faraldursins kallaði fram stóraukna þörf fyrir stærri og flóknari hugbúnaðarlausnir ásamt uppfærðri hönnun á vefsíðum og vefverslunum.

„Mörg fyrirtæki og stofnanir eru í ákveðinni stafrænni vegferð í dag en nú er einmitt enn mikilvægara en áður að vera með stafrænt framboð á vörum og þjónustu,“ er haft eftir Hrafni Ingvarssyni framkvæmdarstjóra Sendiráðsins í tilkynningu.

„Það er því mikill fengur fyrir okkur að fá inn öfluga og reynslumikla einstaklinga á þessum tímapunkti. Ólíkt mörgum öðrum fyrirtækjum höfum við eflst og stækkað í því ástandi sem nú ríkir og byggt upp gott samstarf með okkar viðskiptavinum ásamt því að bæta við stórum og spennandi samstarfsaðilum.“

Tæknistefna Sendiráðsins er alltaf í stöðugri þróun og með stöðugum umbótum voru ferlar einfaldaðir og kostnaður viðskiptavina þar með lækkaður.

„Mikil innviðaþróun hefur átt sér stað hjá okkur undanfarin ár og fengum við staðfestingu á þeirri vinnu þegar tvö teymi fyrirtækisins voru valin í útboði íslenska ríkisins til þess að starfa við þróun Stafræns Íslands næstu árin,” bætir Hrafn við.

Í dag starfa tuttugu hugbúnaðarsérfræðingar, hönnuðir og ráðgjafar hjá Sendiráðinu sem hefur vaxið jafnt og þétt frá stofnun þess árið 2014.